Sannfærandi sigur gegn Aserbaídsjan

Kári Gunnarsson vann báða sína leiki gegn Aserum.
Kári Gunnarsson vann báða sína leiki gegn Aserum. mbl.is/Golli

Karlalandslið Íslands í badminton vann í dag öruggan sigur á Aserbaídsjan, 4:1, á Evrópumótinu í Kazan í Rússlandi.

Kári Gunnarsson vann Sabuhi Huseynov með yfirburðum, 21:9 og 21:2, og Kristófer Darri Finnsson sigraði Jahid Alhasanov, 21:12 og 21:11. Daníel Jóhannesson tapaði hins vegar fyrir Azmy Qowimuramadhoni, 12:21 og 18:21, og staðan því 2:1 fyrir Ísland eftir einliðaleikina.

Kári og Daníel  gerðu út um viðureignina með því að sigra Alhasanov og Huseynov, 21:12 og 21:12, í fyrri tvíliðaleiknum og þeir Kristófer Darri og Davíð Bjarni Björnsson innsigluðu 4:1 sigurinn með því að vinna Qowimuramadhoni og Kanan Rzayev, 21:12 og 21:16.

Ísland er þá með 2 stig eftir tvo leiki í riðlinum en liðið tapaði 0:5 fyrir Þýskalandi í gær.

Þjóðverjar unnu Lúxemborg 5:0 í dag en Ísland mætir Lúxemborg í lokaumferð riðilsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert