Dramb er falli næst

Ester Ledecka á ferðinni í Pyeongchang.
Ester Ledecka á ferðinni í Pyeongchang. AFP

Þeim leið væntanlega mörgum kjánalega við endamarkið í risasviginu á ólympíubrautinni í Pyeongchang í Suður-Kóreu í nótt. Fjöldi fólks hafði þá óskað ólympíumeistaranum frá 2014 til hamingju með annað gull í greininni nú þegar rúmlega tuttugu keppendur höfðu lokið keppni af 45. Keppandi númer 26 lét sér fátt um finnast. 

Anna Veith var með forystuna um hríð en hún hét áður Anna Fenninger og sigraði í risasviginu í Sochi fyrir fjórum árum. Hún keyrði frábærlega niður brekkuna og komst fram fyrir Tinu Weirather frá smáríkinu Liechtenstein. Í framhaldinu óskuðu fjölmargir Veith til hamingju fyrir framan sjónvarpsvélar og ljósmyndara þar sem hún beið í markinu eins og sá sem í efsta sæti gerir á stórmótum í alpagreinum og bíður þess sem verða vill. 

Minni spámenn voru ekki taldir geta breytt stöðunni en í afreksíþróttum er ekkert til sem heitir öruggt eins og Kristinn Björnsson sýndi í Park City fyrir tveimur áratugum rúmum. Ester Ledecka frá Tékklandi renndi sér af stað númer 26. 22 ára gamall keppandi sem aldrei hefur unnið stórmót í hefðbundnum alpagreinum en hefur unnið stórmót á snjóbretti og varð heimsmeistari á bretti í síðasta mánuði. Ledecka skíðaði best allra í risasviginu og sigraði með minnsta mun eða 0,01 á undan Veith.

Gífurlega óvænt úrslit enda fagnaði Ledecka ekki þegar hún kom í mark. Hún virtist ekki skilja almennilega hvers vegna áhorfendur fögnuðu jafn mikið og þeir gerðu ef marka mátti látbragð hennar. Þegar henni var gert ljóst að hún væri með besta tímann heyrðist hún segja: „Þetta hljóta að vera mistök.“

Bandaríska stjarnan Lindsey Vonn hafnaði í 6. sæti í sinni fyrstu ferð á Ólympíuleikum í átta ár en hún var meidd þegar leikarnir fóru fram í Sochi. Hún á sína sterkustu grein eftir sem er brunið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert