Enginn vill sjá Englending

Sadio Mané og Mohamed Salah fagna einu af mörgum mörkum …
Sadio Mané og Mohamed Salah fagna einu af mörgum mörkum Liverpool á Dragao-leikvanginum í Porto í vikunni. AFP

Eyðimerkurganga enskra knattspyrnustjóra heldur áfram; þeir sitja hvergi við kjötkatlana og sá eini sem eftir er í Evrópukeppni í vetur þjálfar Öskubuskusund eða hvað það ágæta lið nú heitir. 

Ensku knattspyrnuliðin þrjú sem hófu leik í sextán liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í vikunni náðu hagstæðum úrslitum; Manchester City og Liverpool eru á leið í næstu umferð eftir að hafa leyst andstæðingana, Basel og Porto, upp í frumeindir sínar og það á útivelli og Tottenham Hotspur náði jafntefli eftir að hafa lent 2:0 undir gegn Ítalíumeisturum Juventus í Tórínó. Í næstu viku er röðin komin að tveimur liðum til viðbótar, Manchester United sem mætir Sevilla og Chelsea sem glímir við sjálfa Börsunga.

Ekki slæmur árangur að eiga fimm lið meðal þeirra sextán bestu í álfunni og mögulega, fari allt á besta veg, fimm lið meðal þeirra átta bestu. Synd væri þó að segja að sá árangur væri enskum knattspyrnustjórum að þakka en ekkert þessara liða býr að innlendum þjálfara og hefur ekki gert lengi. Raunar er enginn enskur stjóri eftir í Meistaradeildinni og aðeins einn í Evrópudeildinni, Harry … nei ég meina Graham Potter, sem stýrir Öskubusku þeirra Svía, Östersund, í 32 liða úrslitunum, einmitt gegn ensku liði, Arsenal.

Að hugsa sér, af 48 liðum sem eftir eru í Evrópumótunum tveimur er aðeins eitt með enskan knattspyrnustjóra. Öðruvísi mér áður brá. Eggið er svo sannarlega farið að kenna hænunni.

Það er svo sem gömul saga og ný en 26 ár eru síðan enskur knattspyrnustjóri stýrði liði til sigurs í ensku úrvalsdeildinni, Howard Wilkinson með Leeds United 1992. Síðasti enski stjórinn til að fagna sigri í Evrópukeppni var Bobby heitinn Robson sem gerði Barcelona að Evrópumeisturum bikarhafa 1997. Síðasti enski stjórinn til að skila ensku félagi Evróputitli var Howard Kendall en Everton vann Evrópukeppni bikarhafa undir hans stjórn á því herrans ári 1985. Síðan eru liðin 33 ár. Segi ég og skrifa. Ef til vill var það ógæfa enskra að það mót skyldi vera lagt niður? Síðasti Englendingurinn til að vinna stærsta Evrópumótið, sem þá hét Evrópukeppni meistaraliða, var Joe Fagan með Liverpool 1984.

 Von í Dyche og Howe

Eigi þessari þurrkatíð í Evrópu að ljúka í ár verða Englendingar að leggja traust sitt á Potter og snjókarlana hans í Östersund enda þótt róðurinn verði þungur eftir 3:0-tap í fyrri leiknum.

 Og ekki eru enskir sparkbændur líklegir til að uppskera í úrvalsdeildinni á næstunni. Sex efstu liðin eru öll með útlenska karla í brúnni og fara þarf niður í sjöunda sæti til að hitta fyrir Englending, Sean Dyche hjá Burnley. Lið hans er „ekki nema“ 36 stigum á eftir toppliði Manchester City.

Til að gæta fyllstu sanngirni þá hefur Dyche unnið þrekvirki hjá Burnley, sem er ekki stór klúbbur, og er annar af tveimur enskum þjálfurum sem geta látið sig dreyma um að taka einhvern tíma við einu af sex stærstu félögunum; hinn er Eddie Howe hjá Bournemouth sem nú vermir tíunda sæti úrvalsdeildarinnar. „Dreyma“ er raunar lykilorðið í þessu sambandi en ólíklegt er að Dyche og Howe verði efstir á óskalista stórveldanna þegar þau þurfa að stjóra sig upp næst. Fyrst verður örugglega horft til Ítalíu, Þýskalands, Spánar, Portúgals, Frakklands, Argentínu eða hvað þessi lönd öll heita.

Þrír aðrir Englendingar starfa við knattspyrnustjórnun í ensku úrvalsdeildinni; Sam Allardyce hjá Everton (9. sæti), Roy Hodgson hjá Crystal Palace (15. sæti) og Alan Pardew hjá West Bromwich Albion (20. sæti) en með fullri virðingu fyrir þeim ágætu herrum þá eru þeirkomnir fram yfir síðasta söludag; alltént frá bæjardyrum toppliðanna séð. 

Skoska hlíðin fölnar

Eftir að sir Alex Ferguson settist í helgan stein er skoska hlíðin heldur ekkert sérlega fögur. Tveir Skotar þjálfa nú í ensku úrvalsdeildinni, David Moyes hjá West Ham United (12. sæti) og Paul Lambert hjá Stoke (19. sæti). Stýri þeir liði til meistaratignar í Englandi eða Evróputitils skal ég byrja að hlusta á kántrítónlist!

Nei, það er ekki um auðugan garð að gresja og vandséð hvaðan næsti „enski“ titill á að koma. Að veðja á Steven Gerrard er ekki verri kostur en hver annar, það er að hann vinni loksins Englandsbikarinn þegar hann verður tekinn við Liverpool af málmhausnum Jürgen Klopp.

Lykilsögnin í þessu sambandi er sem fyrr „að dreyma“.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert