Sigurganga Kanada heldur áfram

Leikmenn Kanada fagna marki í leiknum gegn Rússum í dag.
Leikmenn Kanada fagna marki í leiknum gegn Rússum í dag. AFP

Það verða Kanada og Bandaríkin sem leika til úrslita í íshokkí kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu.

Kanada, sem hefur fagnað ólympíumeistaratitlinum í fjögur skipti í röð, hélt ótrúlegri sigurgöngu sinni áfram í dag en liðið burstaði Rússa, 5:0, í síðari undanúrslitaleiknum. Áður hafði Bandaríkin borið sigur úr býtum gegn Finnum, 5:0, en Bandaríkjamenn hafa ekki unnið ólympíugull í íshokkí kvenna í 20 ár.

Þetta var 24. ólympíusigur Kanadamanna í röð en síðasti tapleikur þeirra leit dagsins ljós árið 1998 þegar þeir töpuðu fyrir Bandaríkjamönnum. Kanada og Bandaríkin léku til úrslita á Vetrarólympíuleikunum fyrir fjórum árum þar sem Kanada hafði betur í framlengdum leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert