Trylltist þegar bróðir hans vann

Håvard Lorentzen gat illa haldið aftur af tárunum eftir glæstan …
Håvard Lorentzen gat illa haldið aftur af tárunum eftir glæstan sigur sinn í dag. AFP

„Ég öskraði eins og brjálæðingur,“ sagði liðsfélagi Emils Pálssonar og Ingvars Jónssonar hjá norska knattspyrnufélaginu Sandefjord, Håkon Lorentzen, en eldri bróðir hans varð í dag ólympíumeistari.

Håvard Lorentzen varð ólympíumeistari í 500 metra skautahlaupi í dag og þar með fyrsti fulltrúi Bergen til að vinna ólympíugull, samkvæmt frétt Aftenposten. Á meðan var Håkon á hótelherbergi á Spáni, þar sem leikmenn Sandefjord eru í æfingaferð, og hann missti sig gjörsamlega á meðan hann fylgdist með keppninni í beinni útsendingu í símanum sínum.

„Þetta er það trylltasta sem ég hef lent í. Tárin láku niður, ég var svo stoltur. Þetta er svo ógeðslega verðskuldað,“ sagði Håkon við Aftenposten. Myndskeiðið hér að neðan sýnir hvernig hann lét á meðan Håvard skautaði til sigurs, en samkvæmt Stefáni Pálssyni, bróður Emils, er það einmitt Emil sem tók upp myndskeiðið. Það hefur farið víða í norskum miðlum og er einnig komið í miðla utan Noregs, til að mynda á vef NBC í Bandaríkjunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert