Serena var nær dauða en lífi eftir fæðingu

Serena Williams.
Serena Williams. AFP

Tennisstjarnan Serena Williams hefur upplýst um það að hún hafi verið hætt komin er hún eignaðist sitt fyrsta barn í september síðastliðnum.

Serena segist hafa verið heppin að hafa lifað af, en skömmu eftir fæðingu fékk hún blóðtappa í lungun. Ekki mátti muna miklu að illa færi og hefur hún nú opnað sig í fyrsta sinn um atvikið.

„Fæðingin sjálf reyndi ekki mikið á mig, en dóttir mín var tekin með keisaraskurði þar sem hjartslátturinn hennar hafði lækkað mikið þegar ég fékk hríðir. Aðgerðin gekk vel og áður en ég vissi af þá var ég með dóttur mína í fanginu, sem er ótrúlegasta tilfinning sem ég hef upplifað. En það sem fylgdi var sólarhringur af óvissu,“ segir Serena og útskýrði hvað gekk á.

„Þetta byrjaði sem blóðtappi í lungum, sem gerist þegar ein eða fleiri slagæð við lunga stíflast. Slíkt var þekkt í sjúkrasögu minni svo ég var hrædd við þetta. Um leið og ég varð andstutt lét ég lækna vita og er heppin að hafa lifað af. Sárið eftir keisaraskurðinn rifnaði upp vegna hósta í kjölfar blóðtappans og ég var drifin í aðgerð,“ sagði Serena.

Eftir fæðingu var hún því rúmliggjandi í um sex vikur, en hún sneri aftur á tennisvöllinn fyrr í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert