Þriðja lyfjamálið komið upp í Pyeongchang

Ziga Jeglic.
Ziga Jeglic. AFP

Þriðja lyfjamálið er komið upp á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang en Ziga Jeglic, leikmaður íshokkíliðs Slóveníu, féll á lyfjaprófi og verður sendur heim af leikunum.

Jeglic, sem er 29 ára gamall, féll á lyfjaprófi en í sýni sem tekið var af honum fannst efnið fenoterol sem er á bannlista en efnið er notað til að meðhöndla öndunarerfiðleika.

Jeglic, sem leikur með rússneska liðinu Neftekhimik Nizhnekams, skoraði sigurmark Slóvena í leiknum gegn Slóvökum í riðlakeppninni um síðustu helgi en Slóvenar tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitunum og etja þar kappi við Norðmenn í dag.

Eins og áður segir er þetta þriðji íþróttamaðurinn sem fellur á lyfjaprófi á Vetrarólympíuleikunum. Sá fyrsti til að falla á lyfjaprófi var Japaninn Kei Sato sem var varamaður í liði Japana í skautaati. Hann var sendur heim í síðustu viku og í gær var Rússanum  Alexander Krushelnitsky vísað af leikunum fyrir lyfjamisnotkun en hann var í liði Rússa í krullu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert