Gull til Ítalíu í bruni kvenna

Sofia Goggia fagna sigri sínum í nótt.
Sofia Goggia fagna sigri sínum í nótt. AFP

Sofia Goggia frá Ítalíu hrósaði sigri í bruni kvenna á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu í nótt.

Hin 25 ára gamla Goggia kom í mark á 1:39,22 mínútum og sá tími skilaði henni fyrstu verðlaunum á Vetrarólympíuleikum en sú ítalska vann til bronsverðlauna í stórsvigi á heimsmeistaramótinu í fyrra. Þetta voru um leið fyrstu gullverðlaun Ítala í bruni kvenna á Vetrarólympíuleikum. Goggia gerði smá mistök efst í brunbrautinni en hún átti frábæran kafla í miðri brautinni og sterkan lokakafla sem skilaði henni gullinu.

Goggia hefur í vetur gert fína hluti í heimsbikarkeppninni en hún hefur unnið tvö mót og hafnað í öðru sæti á öðrum tveimur í bruni og varð einu sinni í þriðja sæti í risasvigi.

Lindsey Vonn vann til bronsverðlauna.
Lindsey Vonn vann til bronsverðlauna. AFP

Silfurverðlaunin féllu Ragnhild Mowinckel frá Noregi í skaut en hún var hársbreidd frá því að skáka tíma Goggia. Þetta voru hennar önnur silfurverðlaun á leikunum en Mowinckel varð önnur í stórsvigi.

Bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn vann til bronsverðlauna og hún vann þar með sín þriðju verðlaun á Vetrarólympíuleikum. Vonn  missti af Vetrarólympíuleikunum í Sochi fyrir fjórum árum vegna meiðsla og þetta eru hennar síðustu leikar á ferlinum. 17 ára gömul keppti hún á sínum fyrstu Vetrarólympíuleikum sem fram fóru í Salt Lake City í Bandaríkjunum árið 2002.

Vonn, sem er 33 ára gömul, er elsta konan til vinna til verðlauna í alpagrein á Vetrarólympíuleikum.

mbl.is