„Hætti ekki fyrr en ég næ metinu“

Lindsey Vonn.
Lindsey Vonn. AFP

Bandaríska skíðadrottningin Lindsey Vonn kvaddi Vetrarólympíuleikana í nótt en henni tókst ekki að komast á verðlaunapall í alpatvíkeppninni sem var hennar lokagrein á sviði Vetrarólympíuleikanna. Vonn náði ekki að ljúka keppni í sviginu.

Þetta eru fjórðu leikarnir sem Vonn tekur þátt í en hún keppti fyrst á Vetrarólympíuleikum 17 ára gömul í Salt Lake City 2002. Hún missti af leikunum í Sochi fyrir fjórum árum vegna meiðsla. Vonn sagði eftir alpatvíkeppnina að hún lofaði því að hætta ekki að keppa fyrr en hún myndi slá met yfir fjölda sigra í heimsbikarkeppninni.

Svíinn Ingimar Stenmark er sá skíðamaður sem hefur unnið flesta heimsbikarsigra en hann vann 86 mót á ferli sínum. Vonn, sem er 33 ára gömul og er ein þekktasta íþróttakona heims, hefur unnið 81 heimsbikarmót.

„Ég mun ekki hætta fyrr en ég næ metinu. Það er alveg á hreinu og skiptir ekki máli hversu mikinn sársauka ég hef. Ég vona bara að það taki ekki meira en eitt tímabil til viðbótar að slá metið því það verður erfitt fyrir mig að halda áfram,“ sagði Vonn, sem vann ein verðlaun á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang en hún varð í þriðja sætinu í bruninu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert