Ég var skratt­inn úr sauðal­eggn­um

Ari Bragi Kárason kemur fyrstur í mark í dag.
Ari Bragi Kárason kemur fyrstur í mark í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég var slakari í undanúrslitunum og hljóp hraðar en ég hef nokkurn tímann hlaupið þá," sagði Ari Bragi Kárason, spretthlaupari úr FH, er hann var nýbúinn að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn í 60 metra hlaupi á Meistaramótinu innanhúss í frjálsum sem fram fer í Laugardalshöll. Hann bætti sinn besta árangur í greininni í undanúrslitunum.

„Þetta er allt saman mjög jákvætt því ég er engan vegin í hugarástandi til að keppa. Ég er ekki búinn að vera einbeittur á að ég sé að fara að keppa. Ég er búinn að vera að hugsa um allt aðra hluti."

Hvað hefur Ari Bragi verið að gera síðustu vikur? 

„Ég er búinn að vera í Phoenix í Arizona síðustu sjö vikur að æfa og það voru gríðarlega mikil viðbrigði og það hefur margt verið að hrærast í hausnum á mér. Það er því rosalega gott að mæta hérna og gera það sem ég þurfti að gera."

Eins og önnur íþrótt

Ari æfði m.a með Andre De Grasse, silfurverðlaunahafa frá Ólympíuleikunum í Ríó, 2016. 

„Ég var að æfa í hópi sem heitir Altis og þar var ég m.a að æfa með Andre De Grasse, Kanadamanninum sem lenti í 2. sæti á Ólympíuleikunum á eftir Usain Bolt. Nú er Bolt hættur og það þýðir að De Grasse er hraðasti 200 metra hlaupari í heiminum í dag og það var gríðarlega mikið viðbrigði að keppa við menn sem eiga mikið betri tíma og eru að keppa á mikið stærri mótum."

„Ég var skrattinn úr sauðaleggnum að æfa með þeim og það kveikti á alls konar heilastarfsemi sem hefur ekki verið virk áður. Það að geta borið sig saman við íþróttafólk sem hefur afrekað miklu meira en ég. Þetta eru tvær mismunandi íþróttagreinar úti og hér heima og vonandi get ég komið með eitthvað heim af því sem ég æfði úti."

Hann ætlar ekki að keppa meira í vetur, en ætlar að koma inn í sumarið af krafti. 

„Ég er búinn að vera að æfa mikið meira núna og ég er ánægður með hraðann. Æfingaálagið á mér er mikið og þetta boðar mjög gott. Ég er bjartsýnn á sumarið. Ég ætla ekki að keppa meira innanhúss í vetur. Ég ætla þess í stað að æfa og vinna úr þessum sjö vikum í Arizona stefnan er að hlaupa hratt í sumar og hakka meira af Íslandsmetstímanum. Ég vil líka taka skref í áttina að því að leika mér með stóru strákunum," sagði Ari Bragi að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert