María Rún hvergi nærri hætt

María Rún Gunnlaugsdóttir var nokkuð sátt með dagsverkið.
María Rún Gunnlaugsdóttir var nokkuð sátt með dagsverkið. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var jöfnun á mínum besta árangri og það var fínt. Ég hefði hins vegar verið alveg til í að hafa farið yfir 1,75 metra, ég var nálægt því,“ sagði María Rún Gunnlaugsdóttir eftir að hún jafnaði sinn besta árangur í hástökki á meistaramótinu innanhúss í frjálsum íþróttum sem fram fer í Laugardalshöll um helgina. María stökk hæst 1,73 metra.

María keppti einnig í 60 metra hlaupi á mótinu, en hún var ekki sátt við árangurinn þar. Hún hljóp á 7,95 sekúndum og hafnaði í 6. sæti. Hún tekur síðan þátt tveimur greinum til viðbótar á morgun.

„60 metrarnir voru alls ekki góðir hjá mér. Hástökkið tekur úr manni, en það var fínt að taka það líka til að sjá hvernig maður stendur, þó að ég hefði viljað fara aðeins hraðar. Ég var sátt við hástökkið, ég tók sigurinn þar, sem var markmiðið. Á morgun er svo 200 metra grind og langstökk og ég stefni alla vega á sigur í langstökki.“

„Það er mikilvægt að ná góðri hvíld og reyna að láta fyrri greinar ekki sitja í sér. Það er erfitt að ná sínu besta í öllum greinum, en maður er vanur því að keppa í þraut, svo ég ætti að vera vön þessu.“

Það er nóg að gera hjá Maríu, sem keppir oftast í fjölþraut. 

„Það er þraut hérna næstu helgi sem ég stefni á að taka og svo er bikarhelgi eftir það, það er seinasta mótið í vetur og svo byrjar undirbúningurinn fyrir sumarið. Ég fer pottþétt út að keppa í þraut og svo eru landsliðsverkefni,“ sagði María Rún Gunnlaugsdóttir í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert