Snorri lauk ekki keppni

Snorri Einarsson, fremstur á myndinni, í 50 km skíðagöngunni í …
Snorri Einarsson, fremstur á myndinni, í 50 km skíðagöngunni í morgun. AFP

Snorri Einarsson náði ekki að ljúka keppni í síðustu grein sinni, 50 km skíðagöngunni, á Vetrarólympíuleikunum í Pyeongchang í morgun.

Snorri, sem var með rásnúmer 44, hætti eftir að hafa gengið níu kílómetra en hann var þá í 57. sæti í röðinni af 71 keppanda.

Hann hafði endað í 56. sæti í báðum sínum greinum, 15 km göngu með frjálsri aðferð og 30 km skiptigöngu.

Þar með hafa Íslendingar lokið þátttöku sinni á leikunum sem lýkur á morgun, sunnudag.

Iivo Niskanen frá Finnlandi varð ólympíumeistari í 50 km göngunni en hann gekk vegalengdina á 2 tímum, 8,22 mínútum, og varð 18,7 sekúndum á undan Alexander Bolshunov frá Rússlandi sem varð annar. Bronsið fékk annar Rússi, Andrei Larkov, en hann var 2,37 mínútum á eftir Finnanum.

Iivo Niskanen fagnar sigri í markinu í morgun.
Iivo Niskanen fagnar sigri í markinu í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert