Engir aufúsugestir í Katar

Þátttaka ísraelskra ungmenna í alþjóðlegri skólakeppni í handknattleik er ekki …
Þátttaka ísraelskra ungmenna í alþjóðlegri skólakeppni í handknattleik er ekki vel séð af ýmsum í Katar við Arabíuflóann. AFP

Mjög skiptar skoðanir eru, svo ekki sé fastara að orðið kveðið, í Katar vegna þátttöku ísraelskra ungmennaliða í óopinberri heimsmeistarakeppni skólaliða í handknattleik sem hófst í Katar um helgina. Katar hefur opinberlega engin tengsl við Ísrael frekar en flest önnur arabaríki.

Um er að ræða ungmenni á framhaldsskólaaldri frá 15 til 18 ára. Mótið hefur verið haldið með reglubundnum hætti víða um heim áratugum saman. Ísraelsmenn hafa verið þátttakendur frá árinu 1970.

Á samfélagsmiðlum hafa foreldrar verið hvattir til þess að draga arabísk börn sín úr keppnisliðum og þátttöku ísraelskra liða verið harðlega fordæmd. „Ég skora á foreldra að vernda börn sín með því að koma í veg fyrir að börn þeirra taki þátt í mótinu þar sem ýtt er undir samskipti við Ísrael,“ skrifar einn á samfélagsmiðli. Hann bætir við: „Nú er kjörið tækifæri til þess að ræða við börn ykkar um ástandið í Palestínu.“ Annar segir að með því að heimila Ísraelsmönnum þátttöku sé ástandið viðurkennt.

Skorað var á starfsmenn á alþjóðaflugvellinum í Doha að neita að stimpla ísraelsk vegabréf. Þeir sinntu þeim áskorunum ekki.

Ísraelski fáninn sást hvergi við setningarathöfn mótsins á fimmtudagskvöld.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þátttaka ísraelskra íþróttamanna veldur úlfúð í Katar. Fyrr á þessu ári olli þátttaka ísraelska tennismannsins Didi Sela á Opna Katarmótinu mikilli reiði í landinu og fordæmingu á samfélagsmiðum sem lauk með því að Tennissamband Katar varð að biðjast afsökunar.

Í nágrannaríkinu, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, var júdómönnum frá Ísrael meinað að bera fána landsins m.a. á keppnisbúningi sínum.

Fjölmiðlafulltrúi mótsins segir að mótshaldarar í Katar skipti sér ekki af því hverjir taki þátt í mótinu. Þeir hafi fallist á að vera mótshaldarar og taki á móti þeim sem eiga keppnisrétt. „Hér er um alþjóðlegt mót að ræða og liðin sem taka þátt hafa unnið sér inn keppnisrétt,“ segir fjölmiðlafulltrúinn og bendir á að m.a. standi ekki til að skipta sér af því, svo dæmi sé tekið, hvaða þjóðir vinna sér þátttökurétt á HM í fótbolta karla sem ráðgert er að fari fram í Doha eftir fjögur ár. Einnig að Katar hafi á undangengnum árum haldið ýmis alþjóðleg stórmót í íþróttum án þess að keppendur hafi verið flokkaðir niður sem æskilegir eða óæskilegir keppendur. Slíkt sé ekki hægt þegar landið haldi alþjóðleg mót.

Katar hefur engin diplómatísk tengsl við Ísrael. Fyrir þremur árum útilokaði utanríkisráðherra Katar að ríkið myndi nokkru sinni taka upp samvinnu eða tengsl við Ísrael. Hins vegar liggur fyrir að Katar hefur stutt við bakið á íbúum Gasa. Einn forvígismanna mannúðaraðstoðar í Katar hefur viðurkennt að sú aðstoð geti ekki átt sér stað án einhverrar samvinnu við Ísraelsmenn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert