Auka hvatning að keppa reglulega á Íslandi

Aníta Hinriksdóttir.
Aníta Hinriksdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er geggjað að taka þátt í bikarnum, það er alltaf stemning. Aðalmálið var að skila stigunum og það tókst," sagði hlaupakonan Aníta Hinriksdóttir í samtali við mbl.is eftir að hún kom örugglega fyrst í mark í 1.500 metra hlaupi á bikarmótinu innanhúss í frjálsum íþróttum í Kaplakrika í dag.

Hún segir það skipta sig máli að ÍR geri vel á móti sem þessu, enda er hún uppalin hjá félaginu.

„Keppnin á milli liðanna er góð. Það myndast sérstaklega góð liðsheild þá. Ég er uppalin hjá ÍR og það skiptir mig máli að liðinu gangi vel. Fyrst og fremst er þetta mót rosalega skemmtilegt."

Aníta hefur keppt tvívegis hér á landi á árinu; fyrst á Reykjavíkurleikunum og svo á bikarmótinu. 

„Það er auka hvatning að koma reglulega til Íslands að keppa. RIG er rosalega flott mót og þar voru sterkir keppendur. Þetta er svo síðasta mótið innanhúss og það er eins gott að maður keppi í bikarnum."

Aníta náði sér ekki almennilega á strik í sömu grein á HM í Birmingham um síðustu helgi. 

„Það var bara ekki alveg minn dagur. Mér finnst 1.500 metra hlaup mjög skemmtileg grein og krefjandi grein, en þetta gekk bara ekki þá. Þess vegna er líka gott að koma hingað að ná aðeins að tæma hausinn."

Hún segist ætla að halda áfram að hlaupa í 1.500 metra hlaupi, sem og 800 metrunum. 

„Eitthvað líka. Ég get enn þá bætt mig þar en 800 metra hlaupið heillar enn mest eins og stendur."

Það er nóg að gera hjá Anítu á næstu vikum og mánuðum.

„Nú fer undirbúningstímabil fyrir sumarið í gang. Ég ætla að byrja að æfa á fullu eftir viku og svo eru æfingabúðir í Flagstaff í Arizona í hæð. Eftir það byrja mótin koll af kolli og EM í Berlín verður það stærsta," sagði Aníta Hinriksdóttir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert