Bikarinn til Norðfjarðar

Leikmenn Þróttar Neskaupsstað fagna bikarmeistaratitlinum.
Leikmenn Þróttar Neskaupsstað fagna bikarmeistaratitlinum. mbl.is/Hari

„Þetta var mjög sætt og gaman að vera komin með tvo titla í hús. Nú er bara að halda áfram og tryggja sér þrennuna með Íslandsmeistaratitlinum,“ sagði Helena Kristín Gunnarsdóttir, fyrirliði Þróttar frá Neskaupstað, eftir að 3:2-sigur á HK var í höfn í Kjörísbikarkeppni kvenna í blaki í gær.

Leikið var í Digranesi og svei mér þá ef þar skapast ekki betri stemning en í Laugardalshöllinni þar sem úrslitin hafa farið fram undanfarin ár.

Það leit ekki út fyrir það í upphafi að um spennandi og skemmtilegan leik yrði að ræða hjá stelpunum. Þróttarar voru miklu sterkari í fyrstu hrinu og framan af þeirri næstu, en Kópavogsliðið gafst ekki upp, lagaði móttökuna hjá sér, en hún hafði verið léleg og þar af leiðir að sóknirnar verða einfaldari. Í lok fyrstu hrinu tókst HK að krækja sér í nokkur stig þannig að munurinn var bara fjögur stig, 21:25.

Deildameistararnir frá Norðfirði byrjuðu aðra hrinuna af krafti og allt virtist stefna í öruggan sigur, en annað kom á daginn. Sendiröðin ruglaðist eitthvað hjá þeim á sama tíma og stigataflan fraus. Þegar búið var að koma öllu í lag var staðan 20:19 fyrir HK og liðið hélt út, 25:23.

Þriðja hrinnan var jöfn og spennandi en Þróttarar sterkari á endasprettinum, 25:21. HK rústaði næstu hrinu 25:15 og síðan var eins og það væru bara Þróttarar sem mættu í oddahrinuna. Lokatölur þar 15:7.

„Þetta var dálítið stressandi í upphafi enda erum við með mjög ungt lið. En eftir að við náðum að hrista það af okkur gekk þetta bara ágætlega nema hvað móttakan hefði mátt vera betri framan af leik,“ sagði Helena Kristín og viðurkenndi fúslega að það væri gott að fá bikarinn aftur, en síðast var hann á Norðfirði árið 2011. „Jú það er æði og nú stefnum við að Íslandsbikarnum líka, það fer svo vel um þá alla þrjá hjá okkur og það er alveg nóg pláss fyrir þá alla,“ sagði fyrirliðinn, kát með afrakstur dagsins.

Sjá allt um bikarúrslitaleikina í blaki í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert