127 milljónir í ferðastyrki til íþróttafélaga

mbl.is

Íþróttafélög landsins hafa nú fengið alls tæplega 127 milljónir króna úr svokölluðum Ferðasjóði íþróttafélaga vegna ferðakostnaðar á árinu 2017.

Sjóðurinn er fjármagnaður af ríkissjóði en það er Íþrótta- og ólympíusamband Íslands sem sér um umsýslu hans, útreikning styrkja og úthlutun til félaganna.

Samkvæmt fréttatilkynningu ÍSÍ bárust Ferðasjóðnum 250 umsóknir um ferðastyrk. Umsóknirnar komu frá 129 félögum í 21 íþróttahéraði, vegna 2.972 keppnisferða í 21 íþróttagrein.

Heildarupphæð umsókna nam tæplega 467 milljónum króna, og sem fyrr segir var því orðið við óskum um sem nemur rúmlega fjórðungi þeirrar upphæðar.

Á vef ÍSÍ kemur fram hvernig milljónirnar 127 skiptast á milli 21 íþróttahéraðs. Af þeim fær Íþróttabandalag Akureyrar hæstu upphæðina eða rétt tæplega 30 milljónir króna. Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands kemur þar næst með 17,3 milljónir króna, Íþróttabandalag Reykjavíkur fær 14,4 milljónir og Íþróttabandalag Vestmannaeyja 12,2 milljónir. Lægsta upphæð fær Ungmennasamband Austur-Húnvetninga eða 14.296 krónur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert