Hilmar Snær í 20. sæti í Pyeongchang

Hilmar Snær, lengst til vinstri, ásamt þjálfurum sínum.
Hilmar Snær, lengst til vinstri, ásamt þjálfurum sínum. Ljósmynd/Íþróttasamband fatlaðra

Hilmar Snær Örvarsson hafnaði í 20. sæti í stórsvigi á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Pyeongchang í Suður-Kóreu en keppni lauk nú rétt í þessu.

Hilmar Snær, sem var með rásnúmer 56, var í 26. sæti eftir fyrri ferðina og hann náði að fara upp um sex sæti í seinni ferðinni en 42 keppendur hófu keppni í stórsviginu.

Hilmar var með samanlagðan tíma 2:29,82 mínútur og varð 17,35 sekúndum á eftir ólympíumeistaranum Theo Gmur frá Sviss.

Upphaflega átti Hilmar Snær að keppa í svigi í nótt og í stórsvigi á föstudaginn en vegna aðstæðna breytti mótstjórnin að snúa dagskránni við.

mbl.is