HK vann eftir maraþonleik

HK er einum leik frá úrslitunum.
HK er einum leik frá úrslitunum. mbl.is/Árni Sæberg

HK er komið í kjörstöðu í einvígi sínu gegn Þrótti Neskaupstað í undanúrslitum Íslandsmóts karla í blaki, eftir 3:2-útisigur í maraþonleik í kvöld. Úrslitin réðust í oddahrinu eftir æsispennu.

Gestirnir úr HK fóru betur af stað og unnu fyrstu tvær hrinurnar, 25:21 og 27:25. Þróttarar voru hins vegar ekki á þeim buxunum að gefast upp því þeir unnu næstu tvær hrinur, 25:20 og 25:22 og léku liðin því oddahrinu. 

Þar hafði Þróttur frumkvæðið framan af, en HK-ingar voru betri á lokakaflanum og tryggðu sér 18:16-sigur í hrinunni og sigur í leiknum í leiðinni. Venjulega er spilað upp í 15 í oddahrinu, en hanna verður að vinna með tveimur stigum og héldu liðin því áfram, þangað til HK komst tveimur stigum yfir. 

Liðin mætast þriðja sinni í Digranesi á sunnudaginn kemur og getur HK tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu með sigri, en þrjá sigra þarf til að komast áfram. 

Miguel Mateo átti stórleik fyrir heimamenn og skoraði 53 stig á meðan Gary House var með 26 stig fyrir HK. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert