Víkingur Íslandsmeistari í borðtennis

Íslandsmeistararnir: Ingi Darvis(fremst) Frá vinstri, Magnús Jóhann Hjartarsson, Sindri Þór …
Íslandsmeistararnir: Ingi Darvis(fremst) Frá vinstri, Magnús Jóhann Hjartarsson, Sindri Þór Sigurðsson, Magnús Kristinn Magnússon og Daði Freyr Guðmundsson Ljósmynd/Styrmir Stefnisson

Raflandsdeildinni í borðtennis lauk í kvöld með 3:0-sigri Víkings gegn BH og eru Víkingar Íslandsmeistarar. Fyrsta viðureignin, sem fór fram á heimavelli Víkings, fór 3:2 fyrir BH, önnur viðureignin fór fram á strandgötu heimavelli BH og þar vann Víkingur 3:2.

Fyrsti leikur kvöldsins var á milli Víkingsins Magnúsar Jóhanns Hjartarsonar og Magnúsar Gauta Úlfarssonar úr BH og fóru loturnar, 8:11, 11:9, 11:4 og 11:5. Annar leikurinn var á milli Magnúsar Kristins Magnússonar úr Víkingi og Jóhannesar Bjarka Urbancic, BH og fóru loturnar, 11:7, 11:8, 8:11 og 11:6 og komst Víkingur með því í 2:0. 

Víkingur gat því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri í tvíliðaleiknum. Fyrir Víking kepptu Magnús Jóhann Hjartarson og Daði Freyr Guðmundsson og fyrir BH kepptu Birgir Ívarsson og Jóhannes Bjarki Urbancic. BH var ekki tilbúið að gefast upp á titlinum og vann fyrstu lotuna 6:11, en Víkingur kom til baka og vann næstu 2 lotur 11:8 og 11:8 og þurftu því aðeins að ná einni lotu í viðbót til að ná titlinum.

BH jafnaði hins vegar leikinn í 2:2 með 8:11 sigri í 4 lotu, áður en Víkingur vann úrslitalotuna 11:6 og leikinn 3:2 og tryggði sér í leiðinni Íslandsmeistaratitilinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert