Júlían og Ragnheiður stigahæst

Júlían J.K. Jóhannsson var stigahæstur í karlaflokki.
Júlían J.K. Jóhannsson var stigahæstur í karlaflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Júlían Jóhann Karl Jóhannsson úr Ármanni og Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir úr Kraftlyftingafélagi Reykjavíkur sigruðu í stigakeppni karla og kvenna á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum sem fram fór í dag í umsjón Kraftlyftingafélags Reykjavíkur.

Í kvennaflokki sigraði Ragnheiður með 417,7 wilks-stig sem er hennar besti árangur. Hún tók 126 kg í hnébeygju, 81,5 í bekkpressu og 152,5 í réttstöðulyftu sem gaf henni 360 kg í samanlögðu en hún keppir í -57 kg flokki. Hún átti einnig bestu bekkpressu og réttstöðulyftu á mótinu. Gekk hún frá mótinu með Íslandsmet í öllum greinum.

Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir varð stigahæst í kvennaflokki.
Ragnheiður Kr. Sigurðardóttir varð stigahæst í kvennaflokki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ellen Ýr Jónsdóttir úr Breiðabliki átti bestu hnébeygjuna og hún lyfti þar 167,5 kg en hún keppir í -84 kg flokki.

Í karlaflokki sigraði Júlían með 473,2 wilks-stig. Hann tók 315 kg í hnébeygju, 200 kg í bekkpressu og 355 kg í réttstöðulyftu sem gaf honum 870 kg í samanlögðu en hann keppir í +120 kg flokki. Hann átti einnig bestu hnébeygjuna og réttstöðulyftuna.

Einar Guðnason frá Akranesi átti svo bestu bekkpressuna en hann lyfti 186,5 sem er nýtt Íslandsmet í bekkpressu -105 kg flokki.

Keppendur á mótinu voru 32, þar af 20 karlar og 12 konur.

Heildarúrslitin á mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert