Þrír íslenskir spjótkastarar á EM?

Sindri Hrafn Guðmundsson.
Sindri Hrafn Guðmundsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svo gæti hæglega farið að Íslendingar muni eiga þrjá íslenska spjótkastara á EM í frjálsum íþróttum í Berlín í ágúst. 

Þær skemmtilegu fréttir bárust frá Bandaríkjunum í gær að Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki hefði náð lágmarkinu fyrir EM í spjótkasti með því að kasta 80,49 metra á háskólamóti í Bandaríkjunum. Rauf Sindri þar með 80 metra múrinn í fyrsta skipti á ferlinum en hann er 22 ára gamall.

Ásdís Hjálmsdóttir.
Ásdís Hjálmsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Sindri er ekki ýkja þekktur í íslensku íþróttalífi en Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni er öllu þekktari enda Íslandsmethafi kvenna í greininni. Í ljósi þess að Ásdís hefur unnið sig inn á stórmótin, ÓL, HM og EM í mörg ár þá er hún líkleg til að komast til Berlínar í ágúst. Ásdís komst til að mynda í úrslit á HM í London í fyrra og bætti eigið Íslandsmet. 

Helgi Sveinsson einnig úr Ármanni er í  fremstu röð í heiminum í sínum flokki jafnvel þótt hann keppi gegn mönnum sem glíma við minni fötlun. Helgi kastaði tæplega 60 metra í fyrra og er því til alls líklegur á EM sem einnig verður haldið í Berlín síðar í ágúst. 

Helgi Sveinsson tekur á móti viðurkenningu sinni fyrir að vera …
Helgi Sveinsson tekur á móti viðurkenningu sinni fyrir að vera í hópi tíu efstu í kjöri íþróttamanns ársins 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert