„Ég trúi þessu ekki“

Juan Martin Del Potro.
Juan Martin Del Potro. AFP

Argentínumaðurinn Juan Martin del Potro batt endi á sigurgöngu Svisslendingsins Roger Federer þegar þeir mættust í úrslitaleik á Indian Wells tennismótinu í gærkvöld.

Del Potro fagnaði sigri í mögnuðum úrslitaleik, 6:4, 5:7 og 7:6 í leik sem stóð yfir vel á þriðju klukkustund og þar með tapaði Federer sínum fyrsta leik á árinu en fyrir úrslitaleikinn hafði hann unnið 17 leiki í röð.

„Ég skelf ennþá. Það er erfitt að lýsa þessum með orðum. Þetta er draumi líkast. Ég trúi því ekki að hafa unnið þetta mót og vinna Federer í frábærum úrslitaleik,“ sagði hinn 29 ára gamli Del Potro eftir sigurinn.

Þetta var sjöundi sigur Del Potro gegn Federer í 25. viðureign liðanna en Argentínumaðurinn hafði betur gegn Federer í úrslitaleik á opna bandaríska meistaramótinu árið 2009.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert