Fanney meistari og bætti Íslandsmet sitt

Fanney Hauksdóttir.
Fanney Hauksdóttir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um helgina var Íslandsmeistaramót í klassískri bekkpressu haldið í þriðja sinn á vegum Kraftlyftingafélags Reykjavíkur í World Class í Kringlunni, en félagið heyrir undir Kraftlyftingasamband Íslands eitt af afrekssérsamböndum ÍSÍ sem lúta ströngu lyfjaeftirliti samkvæmt þeirra reglum.

Mótið gekk afar vel og fjölmörg Íslandsmet féllu. Fanney Hauksdóttir, margfaldur Íslandsmeistari, Evrópumeistari og heimsmeistari í bekkpressu gerði sér lítið fyrir og reif upp 113 kíló og bætti þar með eigið Íslandsmet sitt í opnum flokki í 63 kg flokki  en fyrra met hennar var 112,5 kg.

Ingimundur Björgvinsson, hinn 35 ára gamli Skaftfellingur, bætti einnig Íslandsmet sitt í opnum flokki í 105 kg flokki þegar hann lyfti 201 kg og vann með miklum yfirburðum. Hann fékk harða samkeppni frá Einari „Loftpressu“ Guðnasyni sem reyndi jafnframt við 201 kg en varð að gera sér að góðu annað sætið með 180 kg lyftu.

mbl.is