Íslandsmet féllu á Vestfjarðamótinu

Guðrún Hafberg, Bára Einarsdóttir, Margrét Alfreðsdóttir unnu sigur í liðakeppninni.
Guðrún Hafberg, Bára Einarsdóttir, Margrét Alfreðsdóttir unnu sigur í liðakeppninni. Ljósmynd/Skotíþróttafélag Kópavogs.

Opna Vestfjarðamótið í riffilgreinum, samkvæmt reglum Alþjóðaskotíþróttasambandsins, fór fram á dögunum.

Keppendur Skotíþróttafélags Kópavogs stóðu sig með eindæmum vel; Bára Einarsdóttir vann til gullverðlauna í liggjandi 50 m riffli og þrístöðu og setti Íslandsmet í báðum greinum.

Kvennalið félagsins stóð sig ekki síður vel, fékk gullið í báðum greinum og setti Íslandsmet í báðum.  Arnfinnur Jónsson, Skotíþróttafélagi Kópavogs stóð sig einnig mjög vel og náði 2. sæti eftir harða keppni við heimamanninn Val Richter og lauk keppni með 608.8 stig.

50 m riffill er ólympíugrein, þar sem skotið er á 15.4 cm breitt skotmark á 50 metra færi. Rifflarnir sem notaðir eru í greininni nota .22 skot, en eru einskota. Þeir mega ekki vera með sjónauka og því er þetta afar krefjandi grein. Í þrístöðu er keppt með því formi að hver keppandi skýtur 40 skotum liggjandi, 40 skotum krjúpandi og loks 40 skotum standandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert