McGregor handtekinn - „ógeðslegt“

Conor McGregor er væntanlega ekki brosmildur núna.
Conor McGregor er væntanlega ekki brosmildur núna. AFP

Írski bar­dagakapp­inn Con­or McGreg­or gaf sig fram við lögreglu seint í gærkvöldi eftir meinta árás á rútu í Brooklyn en fjöldi UFC-bardagakappa var í rútunni. 

Samkvæmt fjölmiðlum vestanhafs réðust McGregor og félagar hans að rútu vegna þess að hann átti eitthvað vantalað við UFC-bardagakappann Khabib Nurmagomedov, sem var einn þeirra sem voru í rútunni. 

Gefin var út handtökuskipun á hendur McGregor vegna málsins og dúsar hann nú bak við lás og slá.

McGregor á að hafa hent einhverju inn um glugga sem varð til þess að tveir bardagakappar meiddust og geta ekki tekið þátt í fyrirhuguðum bardögum sínum um helgina. Ljóst er að McGregor á einhverjar kærur yfir höfði sér vegna málsins.

„Þetta er það ógeðslegasta sem hefur gerst síðan UFC var stofnað,“ sagði Dana White, forseti UFC. 

Khabib Nurmagomedov hlær að McGregor.
Khabib Nurmagomedov hlær að McGregor. AFP

Meintur óvinur McGregors, Khabib Nurmagomedov, kippti sér hins vegar lítið upp við atvikið. „Viltu tala við mig? Sendu mér þá staðsetninguna og ég kem. Ekkert mál,“ sagði Nurmagomedov en hann bætti því við að atvikið væri hlægilegt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert