Fínn árangur á fyrri keppnisdegi í Svíþjóð

Íslenski hópurinn sem tekur þátt í Opna sænska meistaramótinu í ...
Íslenski hópurinn sem tekur þátt í Opna sænska meistaramótinu í karate um helgina, f.v.; Lóa Björg Finnsdóttir, Iveta Ivanova, Samuel Josh Amos, Ólafur Engilbert Árnason, Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson og Ingólfur Snorrason, landsliðsþjálfari. Ljósmynd/Karatesamband Íslands

Íslenskt landsliðsfólk gerði gott mót á fyrri degi Opna Sænska meistaramótsins í karate í gær.

Iveta Ivanova gerði sér lítið fyrir og vann í þriðja sinn í röð á árinu er hún náði gulli í Junior flokki, -53 kg. Iveta lagði Jessie OReilly frá Írlandi og Rieh Plæhn frá Danmörku í undanriðli, og síðan sigraði hún Karolina Askuntowich örugglega 5:0 og vann þar með flokkinn. Iveta hefur þá sigrað 13 bardaga á erlendum mótum á árinu en einungis tapað einum.

Ólafur Engilbert Árnason att kappi við sama mótherjann í úrslitum í bæði U-21 og Senior flokkum, -75 kg. Ólafur tapaði fyrir Jakob Lövgren, Danmörku, í úrslitum Senior flokksins, 7:1, en sigraði hann síðan 4:1, í úrslitum í U-21.

Ágúst Heiðar Sveinbjörnsson komst í úrslit í Junior flokki, -76 kg, eftir að hafa lagt Paw Hastrub frá Danmörku og Henrik Rydstrøm frá Noregi. Í úrslitunum keppti Ágúst síðan við Sean McCarthy, frá Írlandi. Sean hefur verið á mikilli siglingu undanfarið og fór í úrslit í flokknum á dögunum á Evrópumótinu í Rússlandi. Svo fór að Írinn hafði betur gegn Ágústi 2:1, eftir ótrúlega jafna viðureign og er ljóst að á góðum degi er Ágúst til alls líklegur.

Á morgun keppa síðan Samuel Josh Ramos og Lóa Björg Finnsdóttir. Meðfylgjandi er myndskeið þar sem farið er yfir keppnisdaginn.

mbl.is