Íslenskir keppendur á úrtökumóti og HM unglinga

Keppendurnir Lego Speight, Ágúst Kristinn Eðvarðsson og Eyþór Jónsson.
Keppendurnir Lego Speight, Ágúst Kristinn Eðvarðsson og Eyþór Jónsson. Ljósmynd/Sveinn Speight

Þrír íslenskir keppendur tóku þátt á stórmótum í Túnis fyrir hönd landsliðsins í taekwondo á dögunum, eða nánar tiltekið dagana 6.-12. apríl.

Þann 6. apríl kepptu Lego Speight og Ágúst Kristinn Eðvarðsson á úrtökumóti fyrir Ólympíuleika Æskunnar sem verða haldnir í Argentínu í október. Úrtakan virkar þannig að efstu átta keppendur í hverjum flokki komast inn á leikana. Ólympíuleikarnir eru fyrir íþróttamenn sem eru 16 og 17 ára á þessu ári og eru leikarnir haldir á fjögurra ára fresti.

Fyrstur keppenda var Leo en hann keppti í -73 kg flokki og þar voru 47 keppendur. Leo keppti við sterkan andstæðing frá Úsbekistan og endaði bardaginn 11:7 fyrir Úsbekistan. Leo barðist vel og bardaginn var ótrúlega jafn. 

Næstur á gólf var Ágúst Kristinn og keppti hann í -48 kg flokki og þar voru 42 keppendur. Fyrst keppti hann við andstæðing frá Finnlandi og Ágúst vann þann bardaga örugglega 27:8. Næst keppti Ágúst við keppanda frá Suður-Kóreu, en íþróttin er einmitt frá Kóreu og er það árangursríkasta þjóð í sögu íþróttarinnar. Bardaginn var mjög góður og báðir íþróttamenn með sína takta. Bardaginn endaði þó 30:13 fyrir Kóreubúanum og þar með Ágúst úr leik og endaði í 13. sæti sem dugir honum ekki til að komast á leikana.

Tveimur dögum eftir úrtökumótið byrjaði heimsmeistaramót unglinga. Þar eru keppendur á aldrinum 15-17 ára og er þetta eitt stærsta mót í heiminum í taekwondo, eða 950 landliðskeppendur frá 120 löndum. 

Þar keppti fyrstur Ágúst Kristinn sem att kappi við keppanda frá Mongólíu. Bardaginn var jafn alveg frá byrjun þar sem keppendur skiptust á að ná forystunni. Andstæðingur Ágústs var gífurlega sterkur og ákafur og endaði bardaginn 29:20 fyrir Mongólíu.

Þremur dögum síðar keppti Leo aftur og núna við keppanda frá Danmörku. Bardaginn var gífurlega jafn og börðust báðir keppendurnir vel. Bardaginn endaði 14:10 fyrir þeim danska. 

Næstur inná gólf var Eyþór Jónsson og hann keppti í -68 kg flokki. Eyþór barðist við keppanda frá Indlandi og var sigurinn aldrei í hættu þar sem Eyþór vann bardagann örugglega 35:15. Næsti bardagi Eyþórs var gegn Papúa Nýju Gíneu. Sá bardagi byrjaði mjög vel fyrir Eyþór og var staðan 7:0 fyrir Eyþór eftir tvær af þremur lotum. Andstæðingurinn hans sóttu gífurlega hart í þriðju lotu og komst yfir á lokasekúndum síðustu lotu og bardaginn endaði 17:14 fyrir Papúa Nýju Gíneu. 

Þar með lauk keppni íslenska landsliðsins á þessum tveimur risamótum. Allir keppendur koma heim reynslunni ríkari og geta enn betur undirbúið sig fyrir komandi keppnir, er segir í tilkynningu.

Liðið samanstóð af:

Eyþór Jónsson – 68 kg flokki

Leo Speight -73 kg flokki

Ágúst Kristinn Eðvarðsson -48 kg flokki

Chago Rodriguez Segur - Þjálfari

Helgi Rafn Guðmundsson - Þjálfari

Sveinn Speight - Foreldri og ljósmyndari

mbl.is