Þróttur Neskaupstað tók forystuna

Frá viðureign Þróttar Neskaupstað og Aftureldingar í kvöld.
Frá viðureign Þróttar Neskaupstað og Aftureldingar í kvöld. Ljósmynd/Kristín Hávarðsdóttir

Þróttur Neskaupstað fagnaði sigri gegn Aftureldingu, 3:1, þegar liðin áttust við í fyrsta leik liðanna í úrslitunum á Íslandsmóti kvenna í blaki í Neskaupstað í kvöld.

Þróttur vann fyrstu tvær hrinurnar, 25:21 og 25:17. Afturelding vann þriðju hrinuna, 25:20, en Þróttarakonur gerðu út um leikinn með því að vinna fjórðu hrinuna, 25:21. Paula Del Olmo skoraði 19 stig fyrir Þrótt og Helena Kristín Gunnarsdóttir 18 en hjá HK var Haley Rena stigahæst með 19 stig og Sigdís Lind Sigurðardóttir skoraði 9.

Annar leikur liðanna fer fram í Mosfellsbæ á miðvikudagskvöldið en vinna þarf þrjá leiki til að hampa Íslandsbikarnum.

Þróttur Neskaupstað hefur orðið Íslandsmeistari 8 sinnum en liðið vann fyrsta Íslandsmeistaratitilinn árið 1996. Síðasti Íslandsmeistaratitil kom árið 2013 en verði Þróttur meistari í ár jafna þeir Víking yfir flesta Íslandsmeistaratitla eða 9 talsins.

Afturelding hefur 3 sinnum orðið Íslandsmeistari kvenna en liðið vann titilinn í fyrsta sinn árið 2012 og síðast árið 2016.

mbl.is