Klárum þetta heima á föstudaginn

Fagna Þróttarar heima á föstudaginn?
Fagna Þróttarar heima á föstudaginn? mbl.is/Hari

„Auðvitað ætlum við að klára þetta einvígi heima á föstudaginn,“ sagði Særún Birta Eiríksdóttir, fyrirliði Þróttar frá Neskaupstað, eftir að liðið lagði Aftureldingu 3:1 í öðrum leik liðanna í rimmunni um Íslandsmeistaratitilinn. Vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari.

„Við spiluðum ekki alveg eins vel og við hefðum viljað, vorum að gera mistök í móttöku og í vörninni. En við bættum þetta upp með mikilli baráttu og náðum að hirða upp helling af boltum sem voru á leið i gólfið.

Við nennum ekki að koma aftur hingað suður á sunnudaginn til að leika annan leik við Aftureldingu þannig að við klárum þetta heima. En eins og þessir tveir leikir hafa spilast þá getur sigurinn dottið hvorum megin sem er og við getum ekkert leyft okkur að mæta í næsta leik og segja að við munum vinna hann. Við þurfum að halda fullri einbeitingu til að vinna Aftureldingu. Þær eru búnar að spila vel og þetta getur alveg dottið þeirra megin ef við erum ekki á tánum.

En það er alveg klárt að við ætlum að lyfta bikarnum á heimavelli og þá er þetta orðið flott í vetur, allir þrír bikararnir, enda eiga þeir heima á Norðfirði,“ sagði fyrirliðinn kampakátur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert