„Er þetta Mo Salah?“

Fyrir utan kaffihús í Cairo í Egyptalandi er stór mynd ...
Fyrir utan kaffihús í Cairo í Egyptalandi er stór mynd af Salah á veggnum. AFP

„Dagur í lífi egypska kóngsins.“ Þannig hefst umfjöllun um egypska sóknarmanninn Mo Salah á CNN. Salah hefur farið á kostum á leiktíðinni, skorað 43 mörk í öllum keppnum, en ýmsir sparkspekingar telja hann besta leikmann í heimi um þessar mundir. Salah lætur aðra um slíkar vangaveltur.

Blaðamaður CNN fylgdi Salah eftir daginn eftir að hann skoraði annað marka Liverpool í 2:1-sigri gegn Manchester City í 8-liða úrslitum meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu. Í gærkvöldi gerði hann enn betur en þá skoraði Salah tvö marka Liverpool í 5:2-sigri gegn Roma í undanúrslitum í sömu keppni.

Daginn eftir leikinn gegn City virkar Salah afslappaður, klæddur í svarta hettupeysu og bláar gallabuxur. Hann klárar úr kaffibollanum og lítur yfir Anfield Road, heimavöll Liverpool.

„Þegar ég var yngri var ég Liverpool þegar ég spilaði tölvuleiki,“ segir Salah og hlær. Sumt sem hann hefur gert með boltann í vetur lítur út eins og eitthvað sem eingöngu ætti að vera hægt að framkvæma í tölvuleikjum.

Salah fagnaði ekki gegn sínum gömlu félögum í Roma í ...
Salah fagnaði ekki gegn sínum gömlu félögum í Roma í gærkvöldi. AFP

„Floppaði“ hjá Chelsea en er frábær hjá Liverpool

Stórkostleg frammistaða Salah hefur komið mörgum aðdáendum enskrar knattspyrnu í opna skjöldu. Hann gekk til liðs við Chelsea 23. janúar 2014 en náði aldrei að festa sig í sessi hjá Lundúnaliðinu. 

Þaðan fór hann til Ítalíu, lék með Fiorentina og Roma, áður en hann var keyptur til Liverpool síðasta haust á 35 milljónir punda. Einhverjir ráku upp stór augu og voru hissa á því að Liverpool væri tilbúið að greiða svo mikið fyrir leikmann sem „floppaði“ hjá Chelsea. Salah er núna metinn á 200 milljónir punda.

„Ég læt aðra um að velta þessu fyrir sér,“ sagði Salah þegar hann var spurður hvort hann væri þriðji besti leikmaður í heimi á eftir Lionel Messi og Cristiano Ronaldo.

Egyptinn skellihlær á æfingu ásamt Virgil van Dijk.
Egyptinn skellihlær á æfingu ásamt Virgil van Dijk. AFP

Frekar einfalt líf

Egyptar eru gríðarlega stoltir af Salah en hann fékk meðal annars mörg þúsund atkvæði í forsetakosningum þar í landi í síðasta mánuði, þrátt fyrir að vera ekki í framboði. Þegar Salah fer til heimalandsins reynir hann að láta lítið fyrir sér fara, sem er oft á tíðum erfitt.

„Það búa 100 milljónir í Egyptalandi. Þetta er lífið mitt og það er auðvelt. Þetta er ekki flókið líf og ég þarf ekki að gera mikið á daginn,“ segir Salah.

Frægðinni fylgi þó ábyrgð en Salah segir það ekki streituvaldandi. „Það er samt svolítið erfitt að hafa ekki frelsið til að gera mistök. Það er pressa á mér en þegar þú hefur verið undir pressu í mörg ár þá lærirðu að takast á við hana.“

Pressan virðist ekki ná til Salah en hann virkar ákaflega afslappaður, innan vallar sem utan. Væntingarnar til hans hafa aukist með frábærri spilamennsku en Salah var útnefndur besti leikmaður tímabilsins 2017-18 í ensku úrvalsdeildinni af Samtökum atvinnuknattspyrnumanna.

„Þegar ég skoraði ekki í leik sögðu sumir: „Vá, hann spilar illa,““ segir Salah og bætir við að allir búist við því að hann geri eitthvað sérstakt í hverjum leik.

Stuðningsmenn Egyptalands búast við miklu af Salah á HM í ...
Stuðningsmenn Egyptalands búast við miklu af Salah á HM í Rússlandi í sumar. Hann tryggði Egyptum sætið þar með því að skora úr vítaspyrnu á 95. mínútu í leik gegn Kongó í undankeppninni. AFP

Dýrkaður og dáður í Liverpool

„Ég þarf ekki að skora í öllum leikjum en ég vil gera mitt allra besta. Ég legg mig allan fram fyrir liðið, liðsfélagana og sjálfan mig.“

Blaðamanni virðist sem það séu ekki bara stuðningsmenn Liverpool sem hafa tekið ástfóstri við Salah, heldur öll borgin. Fólk hópast að þar sem þau ganga um borgina, matargestir þjóta út af veitingastöðum til að ná myndum af sér með „egypska kónginum“ á meðan aðrir líta á hann og virðast varla trúa eigin augum.

„Er þetta Mo Salah?“ spyr vegfarandi á meðan hann reynir að taka mynd. 

„Ég er stuðningsmaður Everton en maður verður að kunna að meta það sem Salah hefur gert á þessu tímabili,“ segir einn við blaðamann. „Eiginkona mín er stuðningsmaður Liverpool og hún elskar Salah,“ bætir hann við.

„Þetta er magnað,“ segir konan sem virðist ekki trúa eigin augum.

„Hann hefur verið frábær,“ segir leigubílstjóri. „Það sem hann hefur afrekað á tímabilinu er ótrúlegt. Ég held að enginn hafi gert sér vonir um að hann myndi hafa þessi áhrif.“

Salah elskar borgina

Líkt og stuðningsmenn Liverpool fara fögrum orðum um Salah fer hann fögrum orðum um borgina. Honum líði eins og heima hjá sér og segir að samfélagið hafi boðið hann velkominn. Hann eigi þó enn í vandræðum með að skilja heimamenn vegna sterks framburðar þeirra.

Myndskeið af stuðningsmönnum Liverpool að syngja söngva tileinkaða Salah hafa farið eins og eldur í sinu um veraldarvefinn. Þau eru auk þess vinsæl í búningsklefa Liverpool.

„Það er frábært að hafa fundið ástina og umhyggjuna hérna frá fyrsta degi,“ segir Salah um tímann í Liverpool. „Þetta gerir það að verkum að ég legg harðar að mér, er jákvæðari og reyni að gera eitthvað í herjum einasta leik.“

Salah vill vera fyrirmynd fyrir ungt fólk í Egytalandi.
Salah vill vera fyrirmynd fyrir ungt fólk í Egytalandi. AFP

„Ég elska þig“

Salah og blaðamaður ganga næst að Bítlasafninu í Liverpool þar sem leikmaðurinn er enn og aftur stöðvaður til að aðdáendur geti myndað sig með honum. „Ég elska þig,“ hrópar ein kona á meðan Salah gefur aðdáendum „fimmu“.

Inni á safninu virðast gestir hafa gleymt því að þeir ætli að skoða sögu Bítlanna en augu flestra gesta beinast að Salah. „Er þetta Mo Salah? Ég elska Mo Salah,“ segir ungur skóladrengur sem er í hóp með skólanum sínum frá Wales.

Salah endar daginn á því að láta mynda sig fyrir framan styttu af Bítlunum. Blaðamaður veltir því fyrir sér hvort einn daginn verði búnar til styttur af Salah og félögum hans í sóknarlínu Liverpool; Roberto Firmino og Sadio Mané. 

mbl.is