Við höfum uppskorið eins og til hefur verið sáð

Leikmenn Þróttar Neskaupstað fagna Íslandsbikarnum.
Leikmenn Þróttar Neskaupstað fagna Íslandsbikarnum. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

„Síðasti Íslandsmeistaratitill vannst 2013 og þá jafnframt deildarmeistaratitillinn. Enginn leikmaður úr því liði er að spila með Þrótti í dag. Það hefur alltaf háð okkur að leikmenn fara í burtu að loknu stúdentsprófi og það tekur tíma að byggja upp aftur. Við erum því ekkert sérlega ánægð með styttinguna á stúdentsprófinu,“ sagði Unnur Ása Atladóttir, framkvæmdastjóri blakdeildar Þróttar í Neskaupstað létt í bragði en Þróttur varð á dögunum Íslandsmeistari í blaki kvenna í níunda sinn frá 1996.

Einnig varð lið Þróttar deildarmeistari og bikarmeistari og ljóst að það er það langbesta í blaki kvenna hér á landi nú um stundir.

„Kvennaliðið okkar í ár samanstendur af ungum og efnilegum leikmönnum og svo tveimur erlendum leikmönnum. Uppspilarinn Ana María Vidal Bouza var að leika sitt þriðja tímabil með okkur,“ sagði Unnur Ása og heldur áfram. „Við fengum til liðs við okkur annan spænskan leikmann, Paula Del Olmo Gomez, til að styrkja sóknarleik liðsins. Helena Kristín Gunnarsdóttir kom óvænt heim frá Bandaríkjunum um áramót og styrkti liðið enn frekar. Liðið óx gríðarlega í vetur og ungu stelpurnar í liðinu sýndu stórkostlegar framfarir. Hafi leikmaður forfallast þá hefur komið inn leikmaður í hans stað og staðið sig frábærlega. Það er svo mikilvægt að liðið sem heild vinni að sama markmiði og allir séu tilbúnir að gera sitt besta þegar þeir fá tækifæri,“ sagði Unnur Ása.

Hverju eru helst að þakka sigrar kvennaliðsins á þessu keppnistímabili?

„Við getum þakkað þjálfurunum okkar frábæran árangur á þessu tímabili og þessum mögnuðu stelpum sem leggja á sig mikla vinnu og tíma til að sinna þessu. Það má því sanni segja að við höfum uppskorið eins og til hefur verið sáð,“ segir Unnur Ása og bætir við.

„Við höfum það markmið að halda áfram öflugu yngri flokka starfi og byggja upp öfluga meistaraflokka og framtíðar blakara. Það má finna blakara frá okkur víðsvegar um land og utan landsteinanna einnig. Við höfum verið heppin með að fólk sem við höfum fengið til okkar í gegnum tíðina hefur skilað sér töluvert í íslenska blakið. Fleiri lið eru farin að leita utan landsteinanna og fá leikmenn inn í lið sín og styrkja þannig deildina.“

Sjá allt viðtalið við Unni Ásu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert