Sigurður og Amanda fögnuðu sigri

Sigurður Örn Ragnarsson.
Sigurður Örn Ragnarsson. Ljósmynd/Þríþrautarsambandi Íslands

Sigurður Örn Ragnarsson og Amanda Marie Ágústsdóttir báru sigur úr býtum í karla- og kvennaflokki í fyrstu þríþrautarkeppni sumarsins sem haldin var um nýliða helgi.

Fyrsta keppni sumarsins var Kópavogssprettþrautin sem haldin var í sól og blíðu á Kársnesinu. Þátttaka var góð en um 100 keppendur voru mættir til leiks, þar af um helmingur í byrjendaflokki.

Nýtt brautarmet var sett þegar Sigurður Örn Ragnarsson kom fyrstur í mark í karlaflokki á tímanum 34:51 mínútum en eldra metið var 35:29 mínútum og sett af Sigurði sjálfum árið 2016. Í öðru sæti í karlaflokki var Bjarki Freyr Rúnarsson á 37:37 mínútum og þriðji Viðar Bragi Þorsteinsson á 38:42 mínútum. Bjarki og Viðar Bragi voru nánast jafnir eftir sund og hjól en úrslitin réðust á hlaupaleggnum.

Amanda Marie Ágústsdóttir.
Amanda Marie Ágústsdóttir. Ljósmynd/Þríþrautarsamband Íslands.

Í kvennaflokki sigraði Amanda Marie á tímanum 43:08 mínútum sem er talsverð bæting á hennar besta tíma. Hörð barátta var um annað sætið en Birna Íris Jónsdóttir kom önnur í mark á 44:15 mínútum og Rannveig Anna Guicharnaud varð þriðja á 44:20 mínútum.

Í byrjendaflokki var það hjólreiðakappinn Birkir Ingvason sem sigraði á tímanum 43:26 mínútum, annar varð Hjalti Sveinsson og Ingvi Jónasson þriðji.

Í kvennaflokki byrjenda kom Brynhildur Georgsdóttir fyrst í mark, Sædís Jónsdóttir varð önnur og Sandra Ósk Sigurðardóttir þriðja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert