Nadal aftur á toppinn

Rafael Nadal með bikarinn í mótslok.
Rafael Nadal með bikarinn í mótslok. AFP

Spánverjinn Rafael Nadal er kominn aftur á topp heimslistans í tennis karla eftir að hann vann Opna ítalska mótið í áttunda skipti í gær.

Nadal vann Alexander Zverev, sigurvegara síðasta árs, eftir tvísýnan úrslitaleik þar sem Þjóðverjinn ungi var kominn með mjög vænlega stöðu á tímabili. Leikurinn fór 6:1, 1:6, 6:3 en Zverev, sem er 21 árs, var búinn að vinna fjórtán leiki í röð fram að þessum úrslitaleik.

Nadal, sem er 31 árs, hefur unnið þetta mót langoftast allra en Novak Djokovic frá Serbíu er næstur með fjóra sigra. Nadal missti efsta sæti heimslistans til Rogers Federer í síðustu viku en endurheimtir það nú strax aftur.

Þetta er 78. sigur Nadals á ATP-mótaröðinni og hann fór þar með uppfyrir goðsögnina John McEnroe og fjórða sæti á listanum yfir þá sigursælustu frá upphafi. Jimmy Connors vann 109 mót, Roger Federer hefur unnið 97 og Ivan Lendl vann 94.

Alexander Zverev óskar Nadal til hamingju.
Alexander Zverev óskar Nadal til hamingju. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert