Tiana vann spennandi hlaup

Tiana Ósk Whitworth fagnar í lok 100 metra hlaupsins í …
Tiana Ósk Whitworth fagnar í lok 100 metra hlaupsins í kvöld. mbl.is/Eggert

Hið árlega JJ-mót Ármanns í frjálsum íþróttum fór fram á Laugardalsvelli í kvöld, en þar voru margir keppendur að berjast fyrir sæti á Smáþjóðameistaramótinu sem fram fer í Liechtenstein í byrjun júní.

Þrjár efstu konur afrekslistans í fyrra mættust í 100 metra hlaupi þar sem Tiana Ósk Whitworth úr ÍR vann á tímanum 12,25 sekúndum. Silfur fékk Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, ÍR, á 12,35 sekúndum og brons fékk Birna Kristín Kristjánsdóttir úr Breiðabliki á 12,74 sekúndum.

Í 100 metra hlaupi karla vann Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS, á tímanum 11,14 sekúndum. Annar var Juan Ramon Borges, Breiðabliki, á 11,53 sekúndum og brons fékk Óliver Máni Samúelsson, Ármanni, en tími hans var 11,74 sekúndur.

Í 400 metra hlaupi kvenna vann Dagbjörg Lilja Magnúsdóttir, ÍR, á tímanum 60,52 sekúndum og bætti um leið sinn besta árangur. Sara Hlín Jóhannsdóttir og Kolfinna Karelsdóttir, báðar úr Breiðabliki, komu þar á eftir á 60,56 sekúndum og 66,47 sekúndum.

Í 400 metra hlaupi karla fór Bjarni Anton Theódórsson, Fjölni, með sigur úr býtum á tímanum 51,09 sekúndum en afar hörð keppni var um silfrið. Björn Þór Gunnlaugsson, Ármanni, hreppti það á tímanum 54,84 sekúndum og 1/100 úr sekúndu þar á eftir kom Árni Haukur Árnason, ÍR, og fékk brons á sínum besta tíma í greininni.

Besta stigaafrek mótsins átti Dagbjartur Daði Jónsson úr ÍR, en hann kastaði þá 71,35 metra í spjótkasti og stóð uppi sem sigurvegari. Í spjótkasti kvenna vann María Rún Gunnlaugsdóttir, FH, en hún kastaði 45,66 metra.

Öll úrslit mótsins má nálgast HÉR.

Tiana Ósk Whitworth, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og Birna Kristín Kristjánsdóttir …
Tiana Ósk Whitworth, Hrafnhild Eir Hermóðsdóttir og Birna Kristín Kristjánsdóttir koma í mark í 100 metra hlaupinu í kvöld. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert