Ármann Íslandsmeistari eftir spennuleik

Íslandsmeistarar Ármanns fagna sigrinum.
Íslandsmeistarar Ármanns fagna sigrinum. mbl.is/Árni Sæberg

Leikurinn um Íslandsmeistaratitilinn í sundknattleik fór fram í kvöld í Laugardalslaug. Lið SH og lið Ármanns kepptust um gullið en svo fór að Ármenningar stóðu uppi sem sigurvegarar eftir hörkuspennandi leik.

Ármann var yfir mestallan leikinn og komst meðal annars í 3:0 í fyrsta leikhluta og 5:2 í hálfleik. SH-ingar duttu þá almennilega í gang og náðu að jafna í 7:7 þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Ármenningar náðu þó að setja eitt mark í viðbót og þar við sat, 8:7 í mögnuðum leik.

Árni Georgsson skoraði 2 mörk fyrir Ármann, Jurij Palaernik, Glenn Moyle, Guilio Mori, Carles Navaro, Tómas Þorsteinsson og Juan Aguilar eitt mark hver.

Djordje Sadzak skoraði 2 mörk fyrir SH, Mladen Tapavcevic, Björgvin Björgvinsson, Georg Leite, Aron Stefánsson og Magnús Konráðsson eitt mark hver.

Martin Tsenov markvörður Ármanns var útnefndur maður leiksins.

Leikurinn var hluti af alþjóðlegu sundknattleiksmóti sem stendur nú yfir í Laugardalnum en þar eigast við 6 erlend lið, ásamt þeim íslensku. Úrslitaleikurinn á mótinu er kl. 19:00 laugardaginn 26. maí en þar á undan fer fram góðgerðarleikur Mjölnis og 101 Granda kl. 18:15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert