Hvar verður HM 2026?

AFP

Staðsetning heimsmeistaramótsins í knattspyrnu árið 2026 verður ákveðin í Rússlandi á miðvikudaginn en tvær umsóknir bárust til FIFA. Annars vegar sótti Marokkó um en hins vegar sótti Bandaríkin, Kanada og Mexíkó um sameiginlega. HM 2022 verður haldin í Katar og verður spilað í nóvember og desember.

FIFA gaf út skýrslu á dögunum þar sem að umsóknirnar eru metnar frá ýmsum hliðum en FIFA segir umsóknirnar báðar mjög ólíkar. Umsókn Marokkó er talin hafa sterk tengsl við ríkisstjórn landsins og umsóknin kemur frá aðeins einu landi sem er oft talið fýsilegra. Marokkó þarf að ráðast í gríðarlega innviðauppbyggingu á næstu árum til þess að geta haldið úti heimsmeistaramóti. Þeir þurfa að byggja níu nýja knattspyrnuvelli ásamt því að stórbæta gistimál og samgöngumál.

Umsókn Bandaríkjanna, Kanada og Mexíkó er talin standast skilyrði FIFA betur. Ekki þarf að byggja neinn nýjan völl og er bara einstaka viðhald á sumum völlum nauðsynlegt. Þá eru innviðir umsóknarinnar taldir standast kröfur FIFA og væri nánast hægt að halda mótið þar í dag. Þá er talið að hagnaður að mótinu verði 1,5 billjón króna en eingöngu rúmlega 750 milljarðar króna ef mótið yrði haldið í Marokkó.

Það er því að mörgu að huga þegar að kosið verður um mótsstað á miðvikudaginn kemur. Bandaríkjamenn vilja eflaust ólmir hreppa hnossið en þeir biðu lægri hlut fyrir Katar um HM 2022.

Fyrir áhugasama má nálgast skýrslu FIFA hér.

Áhættugreining umsóknanna beggja
Áhættugreining umsóknanna beggja FIFA/Bid Evaluation Report
mbl.is