„Veðurspáin góð og algjörlega tilbúin í þetta“

Frá keppninni í fyrra.
Frá keppninni í fyrra. Ljósmynd/Guðmundur Árnason

Í kvöld verður fjallahjólakeppnin Rangárþing ultra haldin í annað skiptið, en hjólað er á milli Hvolsvallar og Hellu. Mótið er samstarfsverkefni sveitarfélaganna Rangárþings ytra og Rangárþings eystra. Er ein vegalengd í boði sem er 50 kílómetrar og verður ekkert hjólað á þjóðvegum.

Eiríkur Vilhelm Sigurðarson, markaðs- og kynningarfulltrúi keppninnar, segir að um 100 manns séu skráðir og skráning sé opin fram til 18:15, en keppni hefst klukkan 19 í kvöld. Segist hann gera ráð fyrir nokkuð yfir 100 þátttakendum í það heila og gerir ráð fyrir góðri keppni. „Veðurspáin góð og algjörlega tilbúin í þetta,“ segir Eiríkur, en þegar mbl.is náði í hann voru mótshaldarar að ljúka undirbúningsfundi.

Í fyrra, þegar fyrsta keppnin fór fram, var hjólað frá Hellu á Hvolsvöll, en nú er því snúið við og farið frá Hvolsvelli á Hellu.

Eiríkur segir að keppnin sé ekki talin tæknilega erfið, en að keppendur fái að hjóla á sandi, möl og eiginlega flest öllu mögulegu undirlagi sem í boði er á Íslandi. Þá verða um 14 kílómetrar á malbiki, en Eiríkur tekur fram að allt sé það utan þjóðvega.

Gera má ráð fyrir fyrstu keppendum í mark um 20:20 og verðlaunaafhendingu klukkan 21.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert