Sindri Hrafn og Dagbjartur bættu sig

Sindri Hrafn Guðmundsson í bikarkeppni í Kaplakrika síðasta sumar.
Sindri Hrafn Guðmundsson í bikarkeppni í Kaplakrika síðasta sumar. mbl.is/Kristinn

Spjótkastararnir ungu, Sindri Hrafn Guðmundsson og Dagbjartur Daði Jónsson, bættu sinn fyrri árangur verulega á alþjóðlegu frjálsíþróttamóti í Jena í Þýskalandi um helgina. 

Sindri Hrafn, sem er 23 ára gamall, kastaði spjótinu 80,91 metra og bætti sinn fyrri árangur um 32 sentímetra. Dagbjartur Daði, sem er tveimur árum yngri en Sindri Hrafn, kastaði spjótinu lengst 76,19 metra en átti best fyrir 72,22 metra frá því í maí á þessu ári. 

Dagbjartur Daði Jónsson spjótkastari úr ÍR.
Dagbjartur Daði Jónsson spjótkastari úr ÍR. mbl.is/Styrmir Kári

Með árangri sínum komst Sindri Hrafn upp í þriðja sæti á afrekslista íslenskra spjótkastara frá upphafi. Aðeins Einar Vilhjálmsson, Íslandsmethafi, og Sigurður Einarsson hafa náð betri árangri. Einar 86,80 metra og Sigurður 84,94 metra. Sindri Hrafn var í fimmta sæti fyrir helgina en komst upp fyrir Guðmund Sverrisson, 80,66 metra, og Sigurð Matthíasson, 80,50 metra, með árangri sínum í Jena. 

Dagbjartur Daði færðist upp í 7. sæti úr 10. sæti á afrekslista íslenskra spjótkastara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert