Guðni Valur tryggði sér sæti á EM

Guðni Valur Guðnason.
Guðni Valur Guðnason. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðni Valur Guðnason tryggði sér í kvöld þátttökurétt í kringlukasti á EM í frjálsum íþróttum sem fram fer í Berlín í ágúst. Hann kastaði 65,53 metra á Coca Cola-móti FH í Kaplakrika í kvöld, sem er hans besti árangur frá upphafi. 

Besta kast Guðna fyrir mótið var 63,50 metrar og bætti hann sig því töluvert. Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar er 67,64 metrar. Guðni er þar með fimmti íslenski íþróttamaðurinn sem tryggði sér þátttökurétt á mótinu. 

Áður höfðu Aníta Hinriksdóttir, Ásdís Hjálmsdóttir, Sindri Hrafn Guðmundsson og Arna Stefanía Guðmundsdóttir gert það. Arna mun þó ekki keppa á mótinu þar sem hún er ólétt. 

mbl.is