Þrír Íslendingar keppa á HM

Tiana Ósk Whitworth
Tiana Ósk Whitworth mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á morgun, þriðjudaginn 10. júlí, hefst HM U20 í frjálsum íþróttum í Finnlandi og stendur fram á sunnudag. Þrír Íslendingar verða meðal keppenda á mótinu en alls verða keppendur rúmlega 1400 talsins frá 150 löndum. Þetta er í 17. skiptið sem HM U20 er haldið og er einn af stærstu viðburðunum á vegum alþjóða frjálsíþróttasambandsins.

Andrea Kolbeinsdóttir hefur keppni fyrst Íslendinga í 3000 metra hindrunarhlaupi klukkan 6:30 á íslenskum tíma í fyrramálið, þriðjudaginn 10. júlí. Andrea náði lágmarki á mótið og bætti í leiðinni Íslandsmetið 20. júní síðastliðinn þegar hún hljóp á 10:31,69 mínútum. Sú sem talin er vera langsigurstranglegust heitir Celliphine Chepteek Chespol og kemur frá Kenía. Hennar persónulega met er 8:58,78 mín sem er næst hraðasti tími í greininni frá upphafi.

Tiana Ósk Whitworth hefur keppni í undanrásum 100 metra spretthlaups á miðvikudaginn klukkan 9:27 á íslenskum tíma. Persónulegt met Tiönu Óskar í greininni er 11,68 sekúndur sem er jafnframt Íslandsmetið í flokki stúlkna 16-17 ára og 18-19 ára. Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hefur einnig hlaupið á þeim tíma og deila þær því aldursflokkametinu.

Búast má við spennandi keppni milli Twanisha Terry frá Bandaríkjunum og Briana Williams frá Jamaíku. Þær tvær eru sigurstranglegastar. Terry varð aðeins sú fimmta frá upphafi í aldursflokknum til að hlaupa undir 11 sekúndum þegar hún hljóp á 10,99 sek fyrr á þessu ári. Til samanburðar þá vannst Íslandsmótið í 100 metra spretthlaupi karla á 10,89 sek árið 2017. Það gefur góða mynd af því hversu sterkt þetta mót er.

Erna Sóley Gunnarsdóttir hefur keppni í kúluvarpi á miðvikudagsmorgunn. Undankeppnin fer fram í tveimur hópum klukkan 7:15 og 8:30 á íslenskum tíma. Þar eru Jorinde Van Klinken frá Hollandi og Julia Ritter frá Þýskalandi sigurstranglegastar.

mbl.is