Djokovic í úrslit eftir tveggja daga leik

Novak Djokovic mætir Kevin Anderson í úrslitum Wimbledon-mótsins í tennis.
Novak Djokovic mætir Kevin Anderson í úrslitum Wimbledon-mótsins í tennis. AFP

Serbinn Novak Djokovic er kominn í úrslit Wimbledon-mótsins í tennis eftir sigur á Spánverjanum Rafael Nadal í frábærum leik. Leikurinn hófst í gær klukkan 20 að íslenskum tíma en Djokovic vann fyrsta settið 6:4. Nadal vann annað settið 6:3 og jafnaði metin en Djokovic komst aftur yfir eftir þriðja settið sem hann vann 11:9 eftir upphækkun og var þá klukkan orðin 23 að staðartíma.

Restinni af leiknum var því frestað til hádegis í dag og hófust leikar að nýju klukkan 12 í hádeginu að íslenskum tíma. Nadal vann fjórða settið 6:3 og jafnaði metin enn á ný en í oddasettinu hafði Serbinn betur, 10:8 eftir upphækkun, og er hann því kominn áfram í úrslit mótsins.

Leikurinn á milli Nadal og Djokovic stóð í fimm klukkustundir og 17 mínútur en Djokovic mætir Suður-Afríkumanninum Kevin Anderson í úrslitum á morgun. Anders vann Bandaríkjamanninn John Isner í undanúrslitum í leik sem fer í sögubækurnar fyrir lengsta undanúrslitaeinvígi í sögu Wimbledon. Sá leikur stóð í 6 klukkustundir og 36 mínútur.

Nadal er númer eitt á heimslista Alþjóðatennissambandsins en Djokovic er í 21. sæti eftir vonbrigðatímabil í ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert