Tvö mótsmet hjá Ásdísi

Ásdís Hjálmsdóttir gerði góða hluti í dag.
Ásdís Hjálmsdóttir gerði góða hluti í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ólympíufarinn Ásdís Hjálmsdóttir vann öruggan sigur í kúluvarpi á Meistaramóti Íslands í frjálsíþróttum á Sauðárkróki í dag er hún kastaði 15,11 metra, sem er nýtt mótsmet. Erna Sóley Gunnarsdóttir kom þar á eftir með kast upp á 14,44 metra og Thelma Lind Kristjánsdóttir varð þriðja. 

Ásdís vann einnig öruggan sigur í spjótkasti, sem er hennar aðalgrein. Hún kastaði lengst 57,74 metra sem er einnig mótsmet. María Rún Gunnlaugsdóttir varð önnur með kast upp á 42,80 metra og Irma Gunnarsdóttir varð þriðja. 

Sindri Hrafn Guðmundsson vann sannfærandi sigur í spjótkasti er hann kastaði 77,01 metra. Dagbjartur Daði Jónsson kom þar á eftir með kast upp á 69,82 metra og Örn Davíðsson var þriðji með 69,33 sem lengsta kast. 

Ari Sigþór Eiríksson vann langstökkið er hann stökk 7,07 metra. Ingi Rúnar Kristinsson varð annar og Juan Borges varð þriðji. Í stangarstökki kvenna stökk Bogey Ragnheiður Leósdóttir 3,52 metra og stóð uppi sem sigurvegari. Rakel Ósk Dýrfjörð Björnsdóttir varð önnur og Hilda Steinunn Egilsdóttir þriðja. 

Sæmundur Ólafsson vann nauman sigur í 1.500 metra hlaupi karla. Hann kom í mark á 4:05,51 mínútum, 0,14 sekúndum á undan Kristni Þór Kristinssyni sem varð annar. Bjartman Örnuson varð þriðji. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert