Æðislegt að sjá þessar ungu stelpur

Ásdís Hjálmsdóttir fer heim með tvö gull og eitt silfur.
Ásdís Hjálmsdóttir fer heim með tvö gull og eitt silfur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Kalt! Það er þannig sem ég geri þessa helgi upp,“ sagði skælbrosandi Ásdís Hjálmsdóttir í samtali við mbl.is í dag. Ásdís hafnaði í öðru sæti í kringlukasti á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í dag. Hún vann spjótkast og kúluvarp í gær.

„Ég er ánægð með minn árangur í þessum greinum miðað við hvað var kalt. Ég fer sátt héðan, ég var að vonast eftir betra veðri svo það væri hægt að gera betri hluti en miðað við aðstæður og hvernig þetta fór þá er ég sátt. Þetta var líka svona í fyrra og árið þar á undan, þetta er alltaf svona á Meistaramótinu, þetta er með ólíkindum.“

Thelma Lind Kristjánsdóttir bar sigur úr býtum í kringlukastinu og var Ásdís mjög ánægð fyrir hennar hönd. 

„Ég er alls ekki pirruð, ég er mjög ánægð fyrir hennar hönd. Thelma var bara betri í dag, hún stóð sig mjög vel í dag og mér finnst æðislegt að sjá þessar ungu stelpur koma upp. Ég vil vera með og ég vil ýta þeim áfram. Ég veit að það er mikið meira virði fyrir hana að vinna þegar ég er með því hún vann mig heldur en ef ég er ekki með því ég held ég geti ekki unnið.“

„Ég vissi að ég var ekki sigurstranglegust í dag, það var hún. Við vorum að kasta virkilega vel, en aðstæðurnar voru leiðinlegar því ég held við hefðum getað fengið lengri köst annars. Ég er alls ekki pirruð og ég samgleðst Thelmu mikið.“

Ásdís hefur verið að glíma við meiðsli í baki, en líðan hennar var góð eftir mótið, þrátt fyrir að hún tæki þátt í þremur kastgreinum á tveimur dögum. 

„Ég er alveg góð, ég hafði mestar áhyggur á bakinu mínu. Ég er búin að vera að glíma við meiðsli í baki. Ég var svolítið hrædd við það í spjótinu í gær því það var ofboðslega kalt. Það er stutt síðan ég byrjaði að kasta aftur og ég vissi ekki hvernig ég myndi bregðast við. Ég fann hins vegar ekkert til og þetta var allt í góðu. Ég fékk nudd í morgun og ég fæ annað á morgun, nú verð ég bara að bíða og sjá hvernig bílferðin fer.“

Fram undan hjá Ásdísi er Evrópumótið í Berlín, en hún gæti keppt í öðru móti áður en að því kemur. 

„Það gæti verið að ég taki eitt lítið mót í Svíþjóð þar sem ég er búsett núna. Ég er bara búin að keppa þrisvar og ég náði ekki alveg að einbeita mér að því sem ég vildi hér vegna aðstæðna,“ sagði Ásdís að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert