Hilmar og Vigdís vörðu titlana

Vigdís Jónsdóttir varði titilinn.
Vigdís Jónsdóttir varði titilinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hilmar Örn Jónsson vann öruggan sigur í sleggjukasti karla á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum en 92. Meistaramótið fer fram á Sauðárkróki um helgina. Hilmar kastaði lengst 64,21 metra sem er nokkuð frá hans besta. Vilhjálmur Árni Garðarsson varð annar með kast upp á 54,92 metra og Axel Máni Steinarsson endaði í þriðja sæti. 

Vigdís Jónsdóttir vann í sleggjukasti kvenna. Hún kastaði 58,59 metra sem er nýtt mótsmet. Elísabet Rut Rúnarsdóttir kastaði 50,80 metra og varð önnur og í þriðja sæti varð Rut Tryggvadóttir með kast upp á 43,43 metra. Hilmar og Vigdís voru að verja Íslandsmeistaratitla sína.

Jóhann Björn Sigurbjörnsson kom fyrstur í mark í 200 metra hlaupi karla á tímanum 21,54 sekúndur. Arnar Valur Vignisson kom þar á eftir á 22,67 sekúndum og Einar Már Óskarsson varð þriðji á 22,86 sekúndum.

Þórdís Eva Steinsdóttir vann 400 metra grindahlaup kvenna. Hún hljóp á 62,70 sekúndum og var 0,8 sekúndum á undan Fjólu Signý Hannesdóttur sem hafnaði í öðru sæti. Sara Hlín Jóhannsdóttir hafnaði í þriðja sæti, en hún bar sigur úr býtum á síðasta ári. 

Ingi Rúnar Kristinsson vann stangarstökkið. Hann stökk 4,42 metra á meðan Ari Sigþór Eiríksson stökk 4,32 og hafnaði í öðru sæti. Gunnar Eyjólfsson stökk 4,22 metra og hafnaði í þriðja sæti. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert