Hörð samkeppni á meðal vinkvenna

Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, sitt hvoru megin …
Tiana Ósk Whitworth og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, sitt hvoru megin við Hrafnhild Eir R Hermóðsdóttur á Sauðárkróki um helgina. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er holl samkeppni. Við ýtum hvor annarri áfram í keppni og á æfingum. Það er heiður að fá að æfa með henni,“ sagði spretthlauparinn og Evrópumeistari 18 ára og yngri, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, um Tiönu Ósk Whithworth í samtali við Morgunblaðið eftir að hún varði Íslandsmeistaratitil sinn í 200 metra hlaupi á Meistaramóti Íslands. Guðbjörg hljóp á 23,89 sekúndum og kom Tíana í öðru sæti á 24,37 sekúndum. Í 100 metra hlaupinu kom Tiana fyrst í mark á 11,75 sekúndum og Guðbjörg kom þar á eftir á 11,86 sekúndum.

Tiana og Guðbjörg öttu því kappi alla helgina á 92. Meistaramóti Íslands sem haldið var á Sauðárkróki. Þær settu svo nýtt Íslandsmet saman með sveit ÍR í 400x100 metra hlaupi ásamt Hrafnhild Eir R. Hermóðsdóttur og Helgu Margréti Haraldsdóttur er þær hlupu á 46,29 sekúndum.

„Það er mjög gaman að keppa á móti henni og með henni, við ýtum hvor annarri áfram. Í 200 metra hlaupinu dró hún mig í mark og það er gaman að geta haft svona samkeppni og verið áfram góðar vinkonur,“ sagði Tiana um Guðbjörgu. Þær voru báðar ánægðar með helgina.

Viðtölin við hlauparana má sjá í heild sinni í Íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun ásamt frekari umfjöllun um Meistaramótið. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert