Yngsti bróðirinn skráði sig í sögubækurnar

Norska undrabarnið Jakob Ingebrigtsen hljóp til sigurs í 1.500 metra hlaupi, lokagrein gærkvöldsins á Ólympíuleikvanginum í Berlín á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum.

Jakob er aðeins 17 ára og vann meðal annars tvo eldri bræður sína, Henrik og Filip, í úrslitahlaupinu. Henrik varð Evrópumeistari 2012 og Filip árið 2016, en nú var komið að Jakobi sem er þar með yngstur í sögunni til að verða Evrópumeistari í hlaupi.

Einn hringur eftir?

Jakob kom í mark á 3:38,10 mínútum og var aðeins 4/100 úr sekúndu á undan Pólverjanum Marcin Lewandowski og 15/100 úr sekúndu á undan Bretanum Jake Wightman sem fékk brons.

„Ég skildi eiginlega ekki hvað hafði gerst. Mér fannst hinir koma svolítið seint á bak við mig. Á lokasprettinum sá ég að það stóð „1“ á skiltinu svo ég slakaði næstum því aðeins á og hugsaði með mér „ó nei, það er einn hringur eftir“,“ sagði Jakob. Sú var hins vegar ekki raunin og hann fagnaði sögulegum Evrópumeistaratitli.

„Sautján ára og búinn að ná markmiðinu á mínum ferli? Maður verður bara að halda svona áfram og verða betri. Ég er hálforðlaus,“ sagði Jakob eftir að titillinn var í höfn. sindris@mbl.is