Tók ekki öskrandi á móti fólki

Þóra B. Helgadóttir, þáverandi fyrirliði Breiðabliks, fagnar Íslandsmeistaratitli ásamt samherja …
Þóra B. Helgadóttir, þáverandi fyrirliði Breiðabliks, fagnar Íslandsmeistaratitli ásamt samherja sínum, Eddu Garðarsdóttur, eftir að þær tóku við sigurlaunum úr hendi þeirra Eggerts Magnússonar og Björgólfs Guðmundssonar, fyrrverandi formanns bankaráðs Landsbanka Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður KSÍ, segist ekki muna eftir fundi með leikmönnum kvennalandsliðsins í knattspyrnu vegna þáverandi landsliðsþjálfara liðsins, Þórðar Lárussonar, þar sem hann hafi öskrað á þær en það kom fram í fyrirlestri Þóru B. Helgadóttur, fyrrverandi landsliðskonu, á ráðstefnunni „Gender and sport“.

„Ég man ekki eftir fundum hjá KSÍ þar sem ég tók öskrandi á móti fólki eða kvaddi það með öskrum. Það getur vel verið að ég hafi haft ákveðnar skoðanir á hlutum. Yfirleitt þegar ég var formaður reyndi ég eftir fremsta megni, ef einhver vandamál komu upp, að leysa þau innan hreyfingarinnar en ekki í fjölmiðlum,“ segir Eggert.

„Yfirleitt lagði ég allt kapp á það að halda persónum og leikendum utan við hlutina og ég get ómögulega fallist á það ég hafi verið öskrandi á fundum.“

Eggert man heldur ekki eftir því að hafa heyrt talað um að Þórður hafi beðið leikmenn landsliðsins um að koma upp á herbergi til sín í einni landsliðsferðinni þegar hann var ölvaður. „Þórður er mikill ágætismaður og var lengi starfandi sem unglingaþjálfari, bæði í félögum og í KSÍ. Svo tók hann við kvennalandsliðinu og það kom upp óánægja sem endaði með því að hann hætti.“

Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður og núverandi heiðursformaður KSÍ.
Eggert Magnússon, fyrrverandi formaður og núverandi heiðursformaður KSÍ. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Ánægður með störf sín í þágu kvennaboltans

Eggert vísar því einnig á bug að metnaður forystu KSÍ hafi verið lítill á þessum tíma gagnvart kvennaknattspyrnunni. Hann nefnir að þegar hann tók við KSÍ hafi ekkert landslið verið starfandi í kvennaknattspyrnu. „Það er margt sem ég er ánægður með eftir 18 ára starf hjá KSÍ og eitt af því sem ég er hvað mest ánægður með er hvað ég gat beitt mér verulega fyrir framgangi kvennaknattspyrnunnar á Íslandi,“ segir hann og bætir við að stöðugt meiri fjármunir hafi farið í kvennaknattspyrnuna á meðan hann var formaður.

„Það var ekki alltaf einhugur um það innan hreyfingarinnar hvert peningar ættu að fara því það var úr miklu minni peningum að spila heldur en núna, eðlilega.“

Fékk mikið hrós eftir að hann hætti

Hann segir að sá framgangur sem hafi verið í kvennaknattspyrnunni eftir að hann tók við, meðal annars með unglingalandsliðsferðum á mót erlendis, hafi líklega verið grundvöllur að góðum árangri A-landsliðsins síðar meir.

„Eftir að ég hætti sem formaður var ég mjög ánægður með það hvað ég hef fengið mikið hrós frá fólki í íslenskri knattspyrnu fyrir það hvað ég barðist ötullega fyrir kvennafótbolta,“ segir hann og nefnir að ummæli Þóru hafi komið sér á óvart enda sé hún afbragðskona og þau hafi starfað saman í mörg ár eftir þetta.

Engin landsliðskona á svörtum lista

Þóra nefndi í fyrirlestri sínum að ein landsliðskona hefði ekki fengið fleiri tækifæri með landsliðinu eftir fundinn. Aðspurður vísar Eggert því á bug að landsliðskona hafi verið sett á einhvers konar svartan lista hjá KSÍ. Annar þjálfari hafi tekið við og forysta KSÍ ráði því ekki hverjir spili með landsliðinu.

Eggert á leik Íslands og Nígeríu á HM í Rússlandi …
Eggert á leik Íslands og Nígeríu á HM í Rússlandi í sumar. mbl.is/Eggert

Ársþing KSÍ ákveður hvernig peningarnir dreifast

Eggert hefur ekkert annað en jákvætt að segja um þennan tíma hvað varðar kvennalandsliðið. „Þessar stelpur voru allar frábærar og þær voru að vinna að framgangi kvennaknattspyrnunnar. Ég var að gera það af fullum krafti og rúmlega það. Minn metnaður var alltaf að gera framgang kvennaknattspyrnunnar sem allra mestan á þeim tíma sem ég var. Ég held að allir hafi verið að róa í sömu áttina.“

Hversu hratt hafi verið mögulegt að fara hafi ráðist af þeim fjármunum sem voru fyrir hendi. Hann bendir á að ársþing KSÍ taki lokaákvörðun um hvernig peningarnir dreifist. Þar sé lögð fram stefnumótandi fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

„Ég hugsa bara jákvætt til þessara stelpna og líka til Þórðar. Það voru allir að reyna að gera sitt besta en það tókst kannski ekki alltaf eins og öllum líkaði.“

Mbl.is hefur ekki náð sambandi við Þórð vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina