Tímar í Reykjavíkurmaraþoninu ógildir

Þúsundir hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu í síðasta mánuði.
Þúsundir hlupu í Reykjavíkurmaraþoninu í síðasta mánuði. mbl.is/Valli

Vegna mistaka eru tímar þeirra hlaupara sem kepptu í heilu og hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoninu í síðasta mánuði ógildir. Úrslitin í greinunum munu þó standa.

„Það er okkur mjög þungbært að tilkynna að mistök voru gerð við lagningu brautar í maraþoni og hálfu maraþoni í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka laugardaginn 18. ágúst. Færa þurfti grindur við snúningspunkt á Sæbraut stuttu fyrir hlaup vegna umferðar og láðist að færa þær til baka aftur. Afleiðingin varð sú að hlaupaleiðin var 213 metrum of stutt. Þetta hefur verið staðfest með endurmælingu á allri brautinni,“ segir í tilkynningu frá mótshöldurum í dag.

Þrátt fyrir að tímarnir séu ógildir hafa yfirdómari hlaupsins og dómstóll Reykjavíkurmaraþons ákveðið að úrslitin í maraþoni og hálfmaraþoni muni standa og verðlaunahafar í öllum flokkum einnig. Hins vegar er ekki hægt að færa tímana inn í afrekaskrá Frjálsíþróttasambands Íslands. Þá er óvíst hvort erlend hlaup taki tímana gilda sem inntökuskilyrði í sínar keppnir.

Sem dæmi má nefna að Arn­ar Pétursson, sem kom fyrstur Íslendinga í mark í heilu maraþoni  á tím­an­um 2:26:43 klukkustundum, var á besta tíma sem Íslend­ing­ur hef­ur náð í maraþoni á ís­lenskri grundu.

Íþróttabandalag Reykjavíkur hefur beðið hlaupara innilega afsökunar á þessum mistökum í tölvupósti sem sendur var í dag. Í ár eins og undanfarin ár var lagður mikill metnaður og vinna í að gera þessa miklu hlaupahátíð sem glæsilegasta og eru framkvæmdaaðilar hlaupsins því niðurbrotnir yfir þessu. Nú þegar er búið að ákveða að fjölga enn frekar eftirlitsmönnum á brautinni á næsta ári til að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig,“ segir í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert