Federer úr leik - átti erfitt með að anda

Roger Federer.
Roger Federer. AFP

Óvænt úrslit urðu á opna bandaríska meistaramótinu í tennis í nótt en þá féll Svisslendingurinn Roger Federer úr leik sem og hin rússneska Maria Sharapova.

Federer, sem fimm sinnum hefur fagnað sigri á opna bandaríska meistaramótinu, tapaði fyrir Ástralanum John Millman í sextán manna úrslitunum en Millman, sem er í 55. sæti á heimslistanum, mætir Serbanum Novak Djokovic sem hafði betur á móti Jao Sousa.

„Ég átti bara erfitt með að anda í hitanum og ég átti í vandræðum í þessum aðstæðum. Þetta hefur mjög sjaldan gerst áður,“ sagði hinn 37 ára gamli Federer, sem hefur á ferli sínum unnið 20 risamót.

Maria Sharapova mátti sætta sig við tap gegn hinni spænsku Cörlu Suarez Navarro í tveimur settum en Sharapova, sem vann opna bandaríska meistaramótið árið 2006, stefndi á að komast í átta manna úrslitin í fyrsta skipti frá árinu 2012. Navarro fékk því góða afmælisgjöf en hún fagnaði þrítugsafmæli sínu í gær.

mbl.is