Bálreið Serena tapaði í úrslitaleik

Naomi Osaka vann sitt fyrsta risamót.
Naomi Osaka vann sitt fyrsta risamót. AFP

Naomi Osaka varð í gærkvöldi fyrst japanskra kvenna til að vinna á risamóti í tennis er hún hafði betur á móti Serenu Williams í úrslitaleik Opna bandaríska meistaramótsins í tveimur settum, 6:2 og 6:4. Hún kom því í veg fyrir að Williams jafnaði met Margaret Court yfir flesta sigra á risamótum. 

Leikurinn gekk ekki áfallalaust fyrir sig, því Williams var allt annað en sátt við dómara leiksins. Dómarinn aðvaraði Williams er þjálfari hennar, Patrick Mourtoglou, kom skilaboðum áleiðis til hennar, en það er ekki leyfilegt í miðjum leik.

Williams brást hin versta við og kallaði dómarann m.a. þjóf og tók hann því af henni stig. Williams kórónaði svo slæman dag er hún skemmdi spaðann sinn eftir tapaðan leik og var henni enn og aftur refsað fyrir vikið. 

Það var baulað hressilega á Osaka er hún tók við verðlaunum sínum fyrir sigurinn, enda Williams gríðarlega vinsæl í Bandaríkjunum og mótið haldið í New York. Báðir keppendur brustu í grát og virkaði Osaka hrærð yfir öllu saman, frekar en glöð með sinn fyrsta sigur á risamóti.

Serena Williams lætur í sér heyra.
Serena Williams lætur í sér heyra. AFP
mbl.is